Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:57:36 (4353)

2000-02-15 15:57:36# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Gunnar Birgisson, segir að það séu færri slys í ólympískum hnefaleikum og þess vegna eigi að heimila þá. Ég er ekki sammála þessu. Auðvitað getur maður sagt að slys séu alltaf alvarleg hvort sem þau eru í fótbolta eða handbolta eða í badminton --- eins og hjá einum hv. þm. --- og í hestamennsku. Auðvitað geta slys verið alvarleg. En það er ekki í mörgum íþróttagreinum gert sérstaklega út á að reyna að koma höggi á andstæðinginn og að það sé markmið að laska hann eða vinna sér inn stig með því að særa hann eða a.m.k. að veikla hann, gera hann veikari fyrir.

Um þetta hafa auðvitað staðið deilur annars staðar en hér. Ég vil rifja upp það sem er á heimasíðu breska læknafélagsins BMA þar sem formaður vísinda- og siðanefndar bresku læknasamtakanna er að svara Nigel Warburton sem hefur skrifað árásargreinar í annað tímarit til að mótmæla afstöðu breska læknafélagsins. Í svari dr. Nathanson hjá bresku læknasamtökunum kemur einmitt fram að það er þessi hlutfallslega áhætta sem er svo há í hnefaleikum, það eru færri sem taka þátt, hnefaleikarnir taka styttri tíma en t.d. rugby og lengra líður á milli keppnanna. Þetta þýðir, og það veit verkfræðingurinn hv. þm. Gunnar Birgisson, að við verðum að horfa á hlutfallslega áhættu. Og þegar horft er á málið þeim augum eru hnefaleikar með því hættulegasta sem til er á íþróttasviðinu og það eru aðallega höfuðáverkar og augnáverkar.