Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 16:03:41 (4357)

2000-02-15 16:03:41# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að tjá mig í þessu máli í þessari umferð en ég get ekki orða bundist. Ég kem í ræðustól eingöngu til að lýsa aðdáun minni á hv. þm. Katrínu Fjeldsted og málflutningi hennar. Ég dáist að þeirri einurð og geðprýði sem þingmaðurinn hefur sýnt þar sem hún leggur það á sig að flytja af stóískri ró og stakri stillingu ræðu sem byggir á faglegum rökum læknisfræðinnar gegn því að hér verði lögleiddar barsmíðar undir því yfirskyni að um íþrótt sé að ræða.

Herra forseti. Mér finnst unun að hlusta á ræðu af því tagi sem hv. þm. Katrín Fjeldsted flutti hér áðan og mér þykir það ekki sæmandi hv. þingmönnum að taka þeim rökum sem þingmaðurinn leggur fram á þeim nótum sem hér er gert. Ég kom einungis til að láta í ljósi þakklæti fyrir frábæra ræðu hv. þm. og undrun á því hvernig þeim rökum sem hún hefur fram að færa er tekið.