Starfsheiti landslagshönnuða

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 16:05:38 (4358)

2000-02-15 16:05:38# 125. lþ. 63.6 fundur 21. mál: #A starfsheiti landslagshönnuða# (landslagsarkitektar) frv. 4/2000, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Eftir svona ólympískar umræður verður þetta afskaplega lítið mál sem ég mæli fyrir fyrir hönd hv. iðnn. Einhver kallaði að það hefðu verið pólitískir hnefaleikar sem hér fóru fram. En hvað um það, ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um breytingu á starfsheiti landslagshönnuða frá hv. iðnn., brtt. sem kynntar eru á þskj. 589 og nál. á þskj. 579.

Nú virðist þetta vera afskaplega einfalt mál, frv. er upphaflega breyting á lögum um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Þau lög sem frv. á að breyta eru afskaplega skýr og í 1. gr. þeirra laga segir svo, með leyfi herra forseta:

,,Lög þessi taka til eftirtalinna starfsheita:

1. verkfræðinga,

2. tæknifræðinga,

3. arkitekta (húsameistara),

4. byggingafræðinga,

5 húsgagna- og innanhússhönnuða,

6. iðnfræðinga,

7. landslagshönnuða og

8. skipulagsfræðinga.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, í 1. gr. umræddra laga. Frv. upphaflega sem hæstv. iðnrh. kynnti snýr í rauninni aðeins að 7. lið þessarar 1. gr. þar sem orðinu ,,landslagshönnuða`` verði breytt í landslagsarkitekta. Það er nú allt og sumt og þess vegna leyfði ég mér að segja að þetta væri í rauninni einfalt mál og því trúðum við a.m.k. þegar það barst inn til hv. iðnn.

Annað hefur í rauninni komið á daginn. Segja má að það hafi undið nokkuð upp á sig og er rétt að víkja aðeins að forsögu málsins en hana má rekja til ársins 1996 þegar samþykkt voru þau lög sem ég vitnaði til og las áðan upp úr. Þar er m.a. gerð sú breyting að í 1. gr. þessara umræddu laga um löggildingu nokkurra starfsheita er tekin upp notkunin hvað varðar löggildingu starfsheitis á orðinu ,,arkitekt`` fyrir þá sem áður voru kallaðir húsameistarar. Einhverjir kunna að spyrja sem svo hvort það samræmist íslenskri málhefð að taka upp orðið arkitekt en Íslensk málstöð mun hafa lagt blessun sína yfir það, með einhverjum semingi þó, en vísar til hefðarinnar og staðfestir í rauninni að þetta erlenda orð sé orðið tökuorð og hafi skipað sér fastan sess í málinu.

En þessi breyting á lögunum frá 1996 virðist hafa haft þau áhrif að aðrar stéttir töldu að hið sama eða svipuð rök gætu gilt um sig. Til þess að gera langa sögu stutta má segja að niðurstaðan hafi orðið sú að iðnrn. eða hæstv. iðnrh. kynnti breytingu á 7. tölul. 1. gr. laganna sem felur í sér að landslagshönnuðir skuli hér eftir vera kallaðir landslagsarkitektar.

Þannig barst málið til nefndarinnar og nefndin kallaði til sín fjölmarga gesti og hefur lagt töluverða vinnu í þetta mál og sá gestalisti er tíundaður í nál. á þskj. 579. Það er mat mitt og líklega annarra í nefndinni að málið sé aðeins flóknara en upphaflega var gert ráð fyrir og snerti óbeint hagsmuni nokkurra starfshópa en ekki síst tilfinningar. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar annarra hópa til viðbótar við fulltrúa landslagsarkitekta og arkitekta, nefnilega fulltrúar húsgagna- og innanhússhönnuða sem hafa með sér félagsskap og samtök og bentu á með mjög ágætum rökum og fullgildum að sömu röksemdafærslu mætti nota um starfsgrein þeirra og um landslagshönnuði eða landslagsarkitekta og í rauninni arkitekta sjálfa.

Á þessi rök féllst hv. iðnn. í rauninni og hefur gert það að brtt. Til þess að gera langa sögu stutta eru brtt. kynntar á þskj. 589, og fellst hv. iðnn. á rök húsgagna- og innanhússarkitekta og fellst jafnframt efnislega á það frv. sem hæstv. iðnrh. kynnti fyrir hv. Alþingi. Með öðrum orðum að hv. iðnn. gerir það að tillögum sínum að í 1. gr. laga um löggildingu nokkurra starfsheita verði í 7. lið notað orðið landslagsarkitektar og í 5. tölul. húsgagna- og innanhússarkitektar.

Nú er það rétt, herra forseti, aðeins til skýringar að lýsa svona í grófum dráttum starfssviði þessara líku starfshópa. Það má segja að arkitektar fjalli um hönnun innan húss sem utan, þ.e. að allt verksviðið falli undir þeirra svið en húsgagnaarkitektar eða húsgagnahönnuðir, eins og þeir heita í dag, innanhússarkitektar og landslagsarkitektar fjalli um tiltekin svið eins og samsetning orðanna gefur til kynna. Þannig eru innanhússhönnuðir að fjalla um og hanna það sem gerist innan húss, verksvið landslagshönnuða eða landslagsarkitekta, er þá utan húss meðan arkitektar ná yfir allt sviðið.

Í framhaldi af því er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að ekki sé eðlilegt að gera alveg sömu menntunarkröfur til þeirra sem hafa takmarkaðra verksvið og hinna sem hafa allt sviðið undir, ef svo má segja.

Hv. iðnn. taldi með öðrum orðum að efnisleg rök fyrir væru því að láta húsgagna- og innanhússhönnuði falla undir sömu rök og landslagshönnuði eða landslagsarkitekta og arkitektastéttina, bæði vegna hefðarinnar á orðanotkuninni enda hefur það komið fram, m.a. í gögnum sem gestir hv. iðnn. sýndu, að í daglegu tali og á prenti, m.a. í æviskrám hafa menn notast við orðin innanhússarkitekt, húsgagnaarkitekt, landslagsarkitekt o.s.frv. Fyrir því er líka faglegur metnaður, það er væntanlega faglegur metnaður sem rekur þessa starfshópa til þess að fá þá viðurkenningu sem hér er til umræðu.

Herra forseti. Vert er að leggja á það þunga áherslu eins og fram kemur í nál. frá hv. iðnn. að með þessum tillögum gerir nefndin mjög skýrt ráð fyrir því, setur það nánast sem skilyrði að með því að löggilda þessi starfsheiti, þ.e. húsgagna- og innanhússarkitekta og landslagsarkitekta, er gengið út frá því að viðkomandi einstaklingur hafi lokið námi á háskólastigi. Þetta er gert m.a. til þess að taka af allan vafa um það að verið er að leggja upp með faglegan metnað og faglega áherslu og greina á milli þeirra sem hafa lokið viðurkenndu námi og háskólanámi í tiltekinni grein frá hinum sem hafa hugsanlega lokið styttri námskeiðum jafnvel á framhaldsskólastigi. Á bak við þessar niðurstöður nefndarinnar má segja að sé tekið undir þann faglega metnað sem starfshóparnir hafa kynnt.

Með þessu telur hv. iðnn. jafnframt að verið sé að gæta samræmis og eins og hér hefur verið reynt að færa rök fyrir og fram kemur í nál. að samræmi sé í notkun orðsins arkitekt hvort heldur það nær yfir allt sviðið eða húsgagna-, innanhúss- og landslagssviðið.

[16:15]

Herra forseti. Að lokum er rétt að það komi einnig fram að nokkrar umræður urðu innan nefndarinnar í tengslum við almenna umræðu um löggildingu starfsheita þar sem á það er bent m.a. að þrátt fyrir löggildingu starfsheitis --- í því felst auðvitað ákveðin viðurkenning og neytendavernd má segja og á að ýta undir meiri tryggingu fyrir gæðum fyrir neytandann, en þá er ekki nóg að viðkomandi ljúki einu sinni námi því að það þarf að fylgja því eftir með ákveðinni kröfu um endurmenntun. Það er í rauninni nokkuð sem hv. iðnn. vill beina til stjórnvalda og ekki síður til einstakra starfshópa, sem fengið hafa slíka löggildingu, að marka skýra stefnu hvað varðar kröfu um endurmenntun hjá stöku hópum. Þarf í rauninni ekkert að rökstyðja það frekar á tímum örra breytinga hversu nauðsynlegt er fyrir einstakar metnaðarfullar starfsstéttir og starfshópa að halda uppi öflugu endurmenntunarstarfi.

Hins vegar, herra forseti, varð nokkur umræða innan nefndarinnar um þá stefnu af hálfu stjórnvalda hvaða stéttir það eru sem fá löggildingu með löggjöf frá hv. Alþingi. Niðurstaða í umræðum nefndarmanna varð í rauninni sú að nokkrum tilviljunum væri háð hvaða starfshópar fengju viðurkenningu og löggildingu frá hv. Alþingi. Nefndin beinir því til hæstv. ríkisstjórnar að marka í rauninni skýrari stefnu um það en verið hefur hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að starfshópur fái löggildingu á borð við þá sem hér er til umræðu og með hvaða hætti það verði gert. En ég legg áherslu á að það sjónarmið var mjög skýrt innan nefndarinnar að með þessum breytingum og þeim ábendingum um að viðkomandi hafi lokið háskólanámi telur hv. iðnn. að hér sé verið að stíga jákvætt skref og í rauninni efla faglegan metnað þessara starfshópa.

Herra forseti. Tillögur hv. iðnn. fela það í sér að í stað orðsins ,,landslagshönnuður`` verði notað orðið landslagsarkitekt og hið sama á við um 5. tölul. 1. gr. umræddra laga, að í stað orðanna ,,húsgagna- og innanhússhönnuða`` komi húsgagna- og innanhússarkitekta. Sambærilegar breytingar verði þá jafnframt gerðar á skipulags- og byggingarlögum þar sem þessara starfshópa er getið. Rétt er að taka fram að allir viðstaddir nefndarmenn skrifa undir nefndarálitið og standa að þessum brtt. Niðurstaða nefndarinnar var samhljóða, enda telur hún að þarna sé gætt samræmis, ákveðins réttlætis, neytendaverndar og menntunarsjónarmiða.

Einnig má segja, herra forseti, að það sé ákveðið tímanna tákn og má segja að sú tíð sé liðin þar sem hjartagæska og hagleikshönd hafi getað leyst flest þau mál sem upp komu hvað varðaði smíði, frágang og viðhald húsa en með hækkandi menntastigi þjóðarinnar koma nýir starfshópar sem láta til sín taka í samfélaginu og þetta er í rauninni aðeins einn angi af því að hækka menntastig þjóðarinnar og um leið að tryggja ákveðna neytendavernd.