Starfsheiti landslagshönnuða

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 16:19:09 (4359)

2000-02-15 16:19:09# 125. lþ. 63.6 fundur 21. mál: #A starfsheiti landslagshönnuða# (landslagsarkitektar) frv. 4/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Formaður iðnn. hefur mælt fyrir nál. nefndarinnar og rituðu allir hv. þm. sem afgreiddu málið undir það. Samstaða var um að afgreiða málið með þeim hætti sem hér hefur verið mælt fyrir um.

Það sem mér finnst skipta máli í afgreiðslu þessa stjfrv. þar sem iðnn. hefur bætt tveimur starfsheitum við það starfsheiti sem fjallað var um í frv. er að farið var mjög ítarlega yfir þetta mál og rætt var við hlutaðeigandi, ekki bara einu sinni heldur oftar, auk þess sem þingmenn áttu fundi með þeim aðilum sem þarna vildu ræða afleiðingar þess að gera breytingar á starfsheiti landslagshönnuða, innanhússarkitekta og húsgagnaarkitekta.

Eins og kom fram í máli formannsins er niðurstaða okkar sú sem hér hefur verið greint frá, að heimild sé fyrir alla þessa þrjá hópa að kallast landslagsarkitektar, húsgagnaarkitektar og innanhússarkitektar. Það er mikilvægt að undirstrika það að í viðurkenningu Alþingis á starfsheitinu sem slíku er ekki verið að breyta réttindum sem felast í starfsheiti þessara einstaklinga. Við erum ekki að gera breytingar á innihaldi löggildingarinnar á neinn hátt. Við undirstrikum það í nál. að viðkomandi skuli hafa prófgráðu á háskólastigi í viðkomandi fagi og prófgráða þýðir þriggja ára háskólanám, það er alveg ljóst.

Fyrir utan að hitta þá hópa sem áttu hlut að máli og fulltrúa ráðuneytis ræddum við bæði við fulltrúa Háskóla Íslands og fulltrúa Listaháskóla Íslands vegna áforma sem uppi eru um að hefja nám hér heima í arkitektúr og þá hugsanlega í þeim greinum sem hér er verið að fjalla um, í afmörkuðum greinum þessa náms. Og það var vissulega hugsanlegt að með tilkomu náms á vegum háskólans og/eða listaháskólans mundu áform um það nám hafa einhver áhrif á hvort við ættum að gera þessar breytingar nú eða bíða með það þar til þetta nám hefði verið sett á í háskólanum og starfsheiti kæmu út úr þeim háskólagráðum sem þar yrði boðið upp á.

Það fullvissar mig hins vegar algerlega um að rétt væri af nefndinni að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem nú hefur verið gert eftir að við hittum þessa aðila og þar var jafnframt undirstrikað að á báðum stöðum væri verið að fjalla um að hefja nám þar sem um væri að ræða þriggja ára nám til BA-prófs og síðan væri gert ráð fyrir tveggja ára viðbótarnámi til fullra starfsréttinda. Ljóst er að þar sem verið er að fjalla um nám af þessu tagi á háskólastigi hér heima er verið að tala um þriggja ára nám sem fyrsta áfanga hvort heldur er í arkitekúr og jafnvel þó að það sé eitthvað sem á eftir að ljúka umfjöllun um hjá þeim hópum sem þetta stjfrv. á við.

Því er hins vegar ekki að neita, virðulegi forseti, að það virkaði frekar ankannalegt að hér kæmi fram stjfrv. um breytingu á starfsheiti landslagshönnuða þar sem ljóst er að í nokkuð langan tíma hafa hinir hóparnir tveir, innanhússhönnuðir og húsgagnahönnuðir, sótt jafnsterklega eftir því að fá að taka upp starfsheitið innanhússarkitekt og húsgagnaarkitekt á sama hátt og landslagshönnuðir hafa óskað eftir að fá að heita landslagsarkitektar. En málið barst hingað inn á Alþingi og til iðnn. eingöngu um landslagshönnuði og um það snýst málið af hálfu iðnn. að hafa afgreitt það mál jákvætt og hafa bætt við þeim hópum sem hér hefur verið fjallað um.

Ég er alveg sannfærð um það og tek undir með formanni iðnn. að þetta sé réttlætismál, að rökrétt sé og jafnvel eðlilegt að þessir hópar beri heitið arkitekt sem hluta af starfsheitinu og undirstrika það eins og formaður iðnn. að við erum ekki að opna á að þessir hópar kalli sig arkitekta heldur landslagsarkitekta, húsgagnaarkitekta og innanhússarkitekta, svo það sé alveg ljóst hvað iðnn. hefur afgreitt.

Að öðru leyti get ég, virðulegi forseti, lýst því yfir að ég er sammála því sem hefur komið fram í orðum formanns iðnn. þegar hann fylgdi þessu máli úr hlaði og vænti þess að Alþingi taki undir með iðnn. og afgreiði þessa tillögu okkar jákvætt þegar málð kemur til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu.