Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 16:36:38 (4362)

2000-02-15 16:36:38# 125. lþ. 63.11 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, TIO
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Frv. til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hefur í umræðunni verið tengt gagnagrunnsmálinu og má með nokkrum sanni segja að það tengist gagnagrunnsmálinu óbeint. Ég hef leitt að því rök og lagt fram gögn um að í gagnagrunnsmálinu sé um ópersónugreinanlegar heilsufarsupplýsingar að ræða og hefur það verið staðfest af sérstakri sérfræðinganefnd Evrópusambandsins.

Í málinu sem hér er til umræðu í dag er hins vegar um að ræða almenn lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Undir þetta lagafrv. falla gagnabankar með heilsufarsupplýsingum úr sjúkraskrám þar sem upplýsingarnar eru ekki dulkóðaðar þannig að þær teljist ópersónugreinanlegar. Slíkar gagnabankar með persónugreinanlegum heilsufarsupplýsingum eru mjög víða til í heiminum. Þeir eru m.a. til á Norðurlöndunum. Þar eru þeir eins og á nokkrum öðrum stöðum í heiminum nýttir til tölfræðilegra athugana og vísindalegra rannsókna. Þetta er í öllum tilfellum gert til að styrkja heilbrigðiskerfið og ýta undir framfarir á sviði vísindarannsókna í læknisfræði.

Því hefur verið haldið fram, kom m.a. fram í þætti í Ríkisútvarpinu sem heitir Kastljósið, að hvarvetna í heiminum þar sem heilsufarsupplýsingar af þessu tagi væru nýttar af þriðja aðila sem grundvöllur rannsókna væri stuðst við upplýst samþykki þeirra sjúklinga sem í hlut ættu. Með öðrum orðum að hvarvetna í heiminum væri upplýst samþykki fyrir slíkri nýtingu upplýsinga.

Þetta er í raun mikill misskilningur því að í raun liggur hvergi fyrir upplýst samþykki frá sjúklingi þegar upplýsingar um hann eru nýttar eða réttara sagt endurnýttar til vísindarannsókna og sem grundvöllur tölfræðilegra athugana, ekki síst á sviði faraldsfræði. Þetta á við allvíða í heiminum, t.d. á Norðurlöndum, þegar upplýsingar úr sjúkraskrám eru notaðar í vísindalegum rannsóknum og hvergi er notað upplýst samþykki. Afar mikilvægt er að hér komi fram að menn séu vel meðvitaðir um þetta.

Hér á Íslandi hefur lengi tíðkast að upplýsingar úr sjúkraskrám séu nýttar í vísindaskyni. Hér á landi og annars staðar í heiminum flokkast allir þeir sem hafa aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám til að vinna úr þeim vísindaleg gögn undir það sem heitir á skilgreiningarmáli alþjóðlegra samninga undir þriðja aðila. Með öðrum orðum: Ef einhver aðili kemst að slíkum upplýsingum til að nota þær og það snertir ekki meðferð sjúklingsins sjálfs þá flokkast hann undir þriðja aðila. Þar getur verið um embættismenn að ræða, starfsmenn rannsóknastofnana eða félaga sem miða að því að ýta undir rannsóknir í heilsufarsmálum. Þar getur líka verið um að ræða einstaka vísindamenn sem annast rannsóknir sem byggðar eru á sjúkraskýrslum. Mikilvægt er að menn átti sig á því að allir þessir aðilar flokkast undir þriðja aðila og að til eru sérstakir sáttmálar um hvernig hægt sé og leyfilegt að veita þriðja aðila aðgang að slíkum gögnum.

Sumir íslenskir læknar hafa lýst því yfir að þeir telji það brot á trúnaði við sjúklinga ef þeir samþykkja eða láta óátalið að upplýsingar úr sjúkraskrám séu nýttar í vísindaskyni án upplýsts samþykkis. Yfirlýsingar af þessu tagi hafa að sjálfsögðu mjög mikla þýðingu, ekki einungis gagnvart hinum svokallaða miðlæga gagnagrunni heldur ekki síður gagnvart heilsufarsgrunnum sem frv. sem rætt er um hér í dag fjallar um. Slíkir grunnar eru til hér á landi og þar má sérstaklega nefna, eins og ég hef gert í þessari umræðu, krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands.

Ég tel einsýnt, í ljósi alþjóðlegra sáttmála sem um þetta fjalla og einnig í ljósi samþykkta alþjóðalæknafélagsins, að þessar fullyrðingar um trúnaðarbrot standist ekki. Ég tel engan veginn standast að það sé brot á trúnaði læknis við sjúklinga sína ef hann lætur viðgangast að upplýsingar úr sjúkraskrám fari til þriðja aðila til nota í vísindaskyni án upplýsts samþykkis. Það tel ég að standist ekki nein gögn um þetta mál og slíkar yfirlýsingar séu byggðar á misskilningi. Ef þessar yfirlýsingar stæðust, ef það væri fótur fyrir þeim þá væri því jafnframt haldið fram, sem ég held að sé rangt, að læknastéttin hefði brotið trúnað við sjúklinga með því að láta það afskiptalaust áratugum saman að upplýsingar úr sjúkraskrám hafa borist í krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands án upplýsts samþykkis. Það er ekki upplýst samþykki fyrir þeim flutningi upplýsinga eins og upplýst hefur verið hér í sérstöku þingmáli.

Með því að fullyrða að þarna sé um trúnaðarbrot að ræða væri því líka haldið fram að gjörvöll danska læknastéttin hefði brotið trúnað við sjúklinga sína með því að sætta sig við að danski gagnagrunnurinn mikli Landspatientregistret væri nýttur til umfangsmikilla vísindarannsókna án upplýsts samþykkis. Ég fjallaði um þann grunn í fyrri ræðu minni um þetta mál og af því má vera ljóst að sá grunnur er víðtækari en íslenski gagnagrunnurinn. Sá er mikið notaður til vísindarannsókna, þar á meðal til rannsókna í geðlækningum.

Ég er þeirrar skoðunar að ef menn líta á öll þau gögn sem um málið fjalla þá standist fullyrðingar af þessu tagi alls ekki, að læknar hafi brotið trúnað við sjúklinga með því að láta ekki upplýst samþykki liggja til grundvallar notkun af þessu tagi. Læknar hafa ekki brotið trúnað með því að samþykkja beint eða óbeint að upplýsingar um sjúklinga þeirra bærust til krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands. Danskir læknar brjóta ekki trúnað við sjúklinga sína þótt upplýsingar úr sjúkraskrám séu fluttar í danska gagnagrunninn og notaðar í vísindaskyni án upplýsts samþykkis.

Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að ómögulegt er að skilja umræðuna um flutning upplýsinga í gagnagrunninn öðruvísi en svo að menn telji að með því að leyfa þriðja aðila að koma að upplýsingum úr sjúkraskýrslum og vinna úr þeim rannsóknir þá séu læknar að brjóta trúnað. Ég tel að svo sé ekki og tel að ekki sé hægt að draga fram nein gögn eða alþjóðlega sáttmála sem bendi til að þessar fullyrðingar séu réttar.

Ég taldi nauðsynlegt að koma þessu að í umræðunni vegna þess að á Íslandi höfum við mjög virka stétt lækna sem stunda vísindarannsóknir á grundvelli upplýsinga úr sjúkraskrám.

[16:45]

Það eru mjög athyglisverðar upplýsingar sem hér eru unnar og það vill svo til að ég er með mjög athyglisverða ritgerð sem fjallar um krabbamein í leggöngum. Þessi vísindaritgerð er byggð á því að hægt sé að fá þennan aðgang að upplýsingunum og að upplýsingarnar séu traustur grunnur sem er ekki hægt að breyta frá einu ári til annars og byggist á því líka að sjúklingarnir geta ekki sagt sig úr grunninum. Ég held að við séum að ræða um mjög yfirgripsmikið vandamál sem sé ástæða til að tala um af mikilli hreinskilni. Á grundvelli raunsæis og á grundvelli þeirra gagna sem til eru um málið vil ég hvetja þingmenn til að kynna sér þessi gögn og reyna að færa umræðuna niður á jörðina.