Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:07:10 (4370)

2000-02-15 17:07:10# 125. lþ. 63.11 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:07]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fyllilega sammála hv. þm. Tómasi Inga Olrich í þessu efni. Mér er kunnugt um að skýrslur sem eru á sjúkrastofnunum í dag eru stöðugt notaðar í rannsóknarskyni enda er einn tilgangurinn með því að safna þessum upplýsingum að afla meiri vitneskju og bæta þekkingu á sjúkdómum og meðferð. Fyrst og fremst er þetta þó til að gæta samræmis og samfellu í meðferð sjúklinga en hin hliðin er þessi. Ég er sannfærð um og ég veit að upplýsts samþykkis sjúklinga er ekki aflað þegar verið er að skoða þessar skýrslur.

Ég hef legið inni á sjúkrahúsi, ég veit að skýrslur mínar hafa verið skoðaðar. Ég hef hins vegar aldrei verið spurð leyfis enda finnst mér ekki þurfa að spyrja leyfis í þessu sambandi. Það er verið að afla þekkingar af fólki sem hefur skrifað undir þagnarskyldu og ég treysti fyllilega til að fara með þær upplýsingar í þeim tilgangi sem ráð er fyrir gert.