Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:17:42 (4372)

2000-02-15 17:17:42# 125. lþ. 63.11 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:17]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hef ég lagt mikið upp úr því hvað hefur dottið úr drögunum að frv. frá því í fyrra, því sem ekki er að finna þar núna. Ég vil segja, virðulegi forseti, að ljóst er að nefndin sem samdi þetta frv. var með þetta inni í drögunum í fyrra. Umrædd tilskipun sem hæstv. ráðherra er að reyna að fela sig á bak við var í gildi í fyrra. Nefndin þekkti hana mætavel og röksemdafærsla af því taginu að hér sé verið að uppfylla skyldur sem kveðið er á um í tilskipun ESB er hreinlega ekki boðleg hér, virðulegi forseti.

Í öðru lagi spyr ég: Af hverju erum við alltaf að tala um þessar viðkvæmu persónuupplýsingar? Það er jú af því að við teljum málefni um einkafjárhag og félagsleg vandamál viðkvæmar persónuupplýsingar. Af hverju? Jú, það gilda sérstakar reglur um meðferð á þessum upplýsingum. Það þarf fyrir fram að fá leyfi til að vinna með þessar upplýsingar. Það skiptir vitaskuld meginmáli hvort þessar upplýsingar eru skilgreindar sem viðkvæmar persónuupplýsingar eða ekki.

Kjarni málsins, virðulegi forseti, er að þetta á að vera þar inni. Þess vegna segi ég að þetta frv. er hannað sem umgjörð fyrir gagnagrunnsfrumvarpið. Upplýsingar um einkafjárhag og upplýsingar um félagsleg vandamál eru eitthvað sem nýtist þar. Þess vegna er betra að hafa þetta fyrir utan og gera ekki þá kröfu til þeirra sem ætla að nýta þessar upplýsingar um að fá leyfi fyrir fram. Svörin sem hæstv. dómsmrh. hefur gefið eru ekki á borð berandi hér á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Á þeim tímum sem þróunin er jafnör og raun ber vitni í tölvu- og upplýsingamálum þá dugir ekki að hæstv. dómsmrh. segi: Það er svo mikið skrifræði í því fólgið að fá leyfi fyrir fram að við teljum rétt að menn byrji á því að vinna með upplýsingarnar og tilkynni það svo.