Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:29:53 (4377)

2000-02-15 17:29:53# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:29]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi þetta frv. nákvæmlega þannig. Í 1. mgr. 5. gr. samningsins er að finna heimild til að veita útlendingi leyfi til að koma og dvelja á Schengen-svæðinu í allt að þrjá mánuði, lesist Íslandi eða annarra landa á Schengen-svæðinu. Þau skilyrði sem ég lýsti í fyrra andsvari mínu mundu þá gilda í þeim tilfellum sem útlendingur utan Schengen-svæðisins kemur til lands okkar.

[17:30]

Þá sé ég nákvæmlega það sem menn hafa verið að grínast með og það kemur mér nokkuð á óvart, þ.e. að nú ætti bara að setja upp hlið t.d. fyrir Bandaríkjamenn þar sem sömu ströngu skilyrðin gilda. Einmitt það virðist vera að gerast núna með aðild okkar að Schengen. Við ætlum að verða gallhörð varðandi komu útlendinga utan Schengen-svæðisins til landsins hvort sem það er að vestan eða að austan. Þess vegna spurði ég hvort verið væri að þrengja skilyrðin við komu til landsins fyrir þá sem eru utan þessa svæðis. Ég skil ráðherrann þannig að skilyrðin verði hert á ytri landamærunum um leið og liðkað er til innan Schengen-svæðisins, að þar geti menn farið nokkurn veginn ótruflaðir ferða sinna og það mun gerast hjá okkur líka.