Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:32:14 (4379)

2000-02-15 17:32:14# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, LB
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:32]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum. Kannski er löngu orðið tímabært að hingað inn á hið háa Alþingi komi frv. með þessu heiti þó hér sé náttúrlega langur vegur frá því að um fullkomið frv. sé að ræða sem leysi af hólmi þau lög sem nú eru í gildi, enda er hér fyrst og fremst um það að ræða að aðlaga núgildandi lög væntanlegu Schengen-samstarfi.

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja í hv. allshn. og fæ því að fjalla mjög vandlega um frv. sem við ræðum nú. Ég ætla þar af leiðandi ekki að flytja langt mál og mikið um þetta. En ég staldra aðeins við a-lið 6. gr. þessa frv. Þar er fjallað um að meina megi útlendingi landgöngu ef nauðsynlegt sé talið af öðrum ástæðum en greint er frá í 1. mgr., þ.e. eins og segir í 10. gr. laganna. Í frv. er verið að leggja til viðbótarheimild til að meina útlendingum landgöngu. Hún hljóðar svo, virðulegi forseti, og yrði þá h-liður 10. gr. laganna:

,,Ef hann getur ekki framvísað gögnum til staðfestingar á tilgangi dvalar og aðstæðum meðan á dvöl stendur.``

Það er alveg augljóst, virðulegi forseti, þegar maður les þetta saman við ákvæðið sem væntanlega er vitnað til í Schengen-samningnum að hér er gengið mun lengra. Þar er svona nokkurn veginn, ef ég man þetta orðalag rétt, vísað til að eftir atvikum sé hægt að meina mönnum landgöngu o.s.frv.

Þetta er þó kannski ekki megintilefni þess að ég óska eftir því að fá að ræða þetta mál örlítið. Ég vildi fá að beina þeim spurningum til hæstv. dómsmrh. hvernig háttað sé málsmeðferð hjá þeim sem hingað leita og er meinuð landganga. Hvaða möguleika hafa þeir í þeirri stöðu? Er framkvæmdin þannig að landamæraverðir, ef svo má að orði komast, eða tollverðir vísi þeim umsvifalaust úr landi eða gefst þeim kostur á að kalla til og hugsanlega fá lögfræðiaðstoð til að flytja mál sitt? Hvernig er þessum reglum háttað?

Umræðan hefur bent til að hér séum við á dálítið hálli braut, enda segir í grg. með frv. á bls. 6 að ýmislegt sé ekki til lykta leitt í samstarfi Schengen-ríkjanna, m.a. hafi málsmeðferðarreglur um umsóknir um hæli ekki verið afgreiddar. Því spyr ég hæstv. dómsmrh. hvernig þessu sé háttað því að við höfum nú fyrir nokkuð löngu, hinn 30. nóvember 1995, fullgilt svonefndan Genfarsamning. Í Stjórnartíðindum var auglýst að þar væri um að ræða aðild Íslands að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna. Í þessum samningi er andinn sá að flóttamenn eigi þess kost að mál þeirra fari fyrir þar til bær yfirvöld. Reyndar segir í 10. gr., sem ég vitnaði til áðan, að lögregustjóri kveði upp úrskurð um synjun landgönguleyfis o.s.frv. Í raun, virðulegi forseti, beinast þó orð mín ekki að þessu heldur því hvernig framkvæmdin hafi verið á þessu sviði. Ég spyr hvort í þeim tilvikum sem upp hafa komið --- ég er ekki að spyrja hversu mörg þau hafa verið --- hafi verið tryggt að þessir aðilar gætu fengið aðstoð lögmanna og áður en úrskurður í málefnum þeirra er kveðinn upp fengju þeir að tala máli sínu fyrir þar til bærum yfirvöldum. Þessari spurningu, virðulegi forseti, langar mig að beina til hæstv. dómsmrh.

Ég er hins vegar svo lánsamur í tilverunni að sitja í hv. allshn. og fæ ég tækifæri til að fjalla um þetta mál. Ég beini samt sem áður þessari fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. og spyr þá jafnframt hvort á leiðinni séu reglur sem hugsanlega bæti úr ef málið er ekki í þeim farvegi sem lýðræðisríki og réttarríki krefjast.