Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:42:17 (4381)

2000-02-15 17:42:17# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:42]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að viðhorf mín og hv. þm. Ögmundar Jónassonar til samstarfsins innan Schengen eru ekki hin sömu. Ég hef stutt Schengen-samstarfið en ef ég man rétt þá hefur hann verið með harða gagnrýni varðandi það. Hins vegar lýtur gagnrýni mín að því hvort við, í skjóli aðildar að Schengen, séum að setja upp óþarflega hörð skilyrði gagnvart þeim sem eru utan Schengen-svæðisins til að komast til landsins. Ég kom með athugasemdir og spurningar vegna þessa. Ég lýsti eigin upplifun af því að koma til landa með mjög óvinsamleg landamæri. Mér mundi finnast það mjög miður, af því að ég er stuðningsmaður aðildar að Schengen, ef í skjóli Schengen-samstarfs ætti að gera land okkar að einhvers konar lögregluríki. Ég vil í því efni vísa til ræðu hv. þm. Samfylkingarinnar, Lúðvíks Bergvinssonar, hér áðan þar sem hann fór yfir ákvæðin í samningnum og taldi að ákvæði þessa frv. væru mun afdráttarlausari og neikvæðari en það sem felst í Schengen-samningnum sjálfum. Auðvitað ætlumst við ekki til þess. Við eigum að stíga varlega til jarðar. Við eigum að vera vinsamleg gagnvart öllum þeim sem koma til þessa lands. Ég óska eftir því að þetta frv. og orðalag greina þess verði skoðað afskaplega vel í hv. allshn.