Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:44:25 (4382)

2000-02-15 17:44:25# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm., við höfum ólíka afstöðu til Schengen-samkomulagsins. Við byggjum afstöðu okkar á málefnalegum forsendum. Mínar eru þær að ég tel að tilkostnaðurinn við Schengen sé of mikill miðað við þá kosti sem þessu fylgja. Ég tel að með Schengen-samstarfinu muni draga úr fíkniefnaeftirliti, eftirliti í tolli. Jafnframt finnst mér það ekki hugnanleg framtíðarsýn að þurfa að draga erlenda gesti sem koma til Íslands í dilka, annars vegar Evrópusambandsfólkið og hins vegar þá sem koma frá öðrum löndum, hvort sem það er frá Asíu, Bandaríkjunum, Kanada, Vestur-Íslendingana eða aðra. Ég á eftir að sannfærast um að eftirsóknarvert sé fyrir Íslendinga að gerast landamæraverðir fyrir hið nýja evrópska stórríki. Það er framtíðarsýn sem ég felli mig ekki við.