Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:56:43 (4388)

2000-02-15 17:56:43# 125. lþ. 63.13 fundur 118. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Nú er klukkan að halla í sex og þegar kemur að þingmannamálunum sem okkur alþingismönnum finnst skipta máli að hreyfa hér á hv. Alþingi og eru oftast mikil umbótamál, þá er það nú svo að við ræðum þau gjarnan hvert við annað í stjórnarandstöðunni, því miður, því að nokkuð algengt er að þá mega ráðherrar ekki vera að því að vera við umræðu okkar og spurning hvort við erum þess vegna aðallega að tala hvert við annað og til þeirra þingmanna sem hugsanlega geta haft áhrif á málin í nefnd fremur en forráðamann málaflokksins, enda erum við með flutningi slíkra tillagna að benda á það sem ekki hefur enn þá verið tekið á í umbótum.

Samfylkingin hefur verið að flytja fjölmörg þingmál á þessu hausti, virðulegi forseti, um börn, um barnafjölskyldur, réttindi barna, aðbúnað barna og möguleika þeirra til þroska. Þessi mál hafa verið að koma til umræðu á þinginu og fyrir sumum hefur enn þá ekki verið mælt. Ég ætla að leyfa mér í upphafi framsögunnar að drepa á hvaða mál þetta eru. Þetta eru tillögur um að refsivert sé að framleiða og dreifa barnaklámi, frv. um réttarstöðu barna og rétt þeirra til umgengni við báða foreldra sína, um að barni verði skipaður talsmaður ef ágreiningur verður um umgengni barns við annað foreldrið, um vandaða skilnaðarlöggjöf og að ráðgjöf við hjónaskilnað og sambúðarslit verði skilyrði fyrir útgáfu skilnaðarpappíra. Þetta eru tillögur um að tryggja barni sem getur myndað eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum, rétt samkynhneigðra til stjúpættleiðinga en hér er um allstóran hóp íslenskra barna að ræða sem búa við þær aðstæður að búa með stjúpforeldri sem ekki á rétt á slíkri ættleiðingu, bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota og um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna og ekki síst heildarstefnumótun í málefnum barna.

Hér er drepið á nokkur þeirra mála sem Samfylkingin hefur verið að flytja í haust og fram eftir þessum vetri. Því nefni ég þessi mál, virðulegi forseti, að þau snerta öll á sinn hátt þá þáltill. sem ég er að mæla fyrir í lok þessa vinnudags, en hún er um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar.

[18:00]

Herra forseti. Það miðar ákaflega hægt að útfæra þau ákvæði sem felast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Barnasáttmálinn átti tíu ára afmæli í nóvember sl. og Ísland fullgilti sáttmálann árið 1992. Það er til umhugsunar af hverju við höfum ekki lögleitt hann hér í heild sinni, þá væri búið að útfæra fleiri af þeim lagaákvæðum og tillögum sem ég nefndi áðan og mun koma nánar inn á í máli mínu. Þá væri e.t.v. staðið betur að barnafjölskyldum og málefnum barna en raun ber vitni. Í því efni bið ég þingmenn að líta á fylgiskjal á bls. 5 í þeirri tillögu sem ég er að mæla fyrir. Þar kemur fram í töflum sem unnar hafa verið upp úr opinberum gögnum að við stöndum okkur ákaflega illa.

Á meðan við erum með langhæsta hlutfall, nærri því 30% af íbúum 0--17 ára af heildaríbúafjölda á fjögurra ára tímabili, 1993--1997, eru aðrar Norðurlandaþjóðir með hlutfallið frá 20--26%. Á sama tíma og við erum með langstærsta hlutfallið þá rennur til fjölskyldna barna sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu langminnst hlutfall eða 2,2 árið 1997 á móti 3,4--3,7 annars staðar á Norðurlöndunum. Útgjöld til félags- og heilbrigðismála sem renna til fjölskyldna og barna í jafnvirðisgildum eru miklu lægri á Íslandi, 506 á móti frá 687 og upp í 866 í öðrum löndum. Útgjöld til dagvistarmála eru miklu lægri en útgjöld til barnaverndarmála eru góð hjá okkur enda höfum við verið að taka á í þeim málum frá árinu 1993.

Tillagan sem ég mæli fyrir hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að gera úttekt á lögum sem varða réttarstöðu barna með það að markmiði að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem staðfestur hefur verið af hálfu Íslands. Þá geri nefndin í sama tilgangi úttekt á framkvæmd laga sem snúa að börnum. Einnig verði metið hvort rétt væri að lögleiða sáttmálann í heild sinni eins og mannréttindasáttmála Evrópu. Nefndin skal m.a. skipuð fulltrúa Barnaverndarstofu, Barnaheilla og Mannréttindaskrifstofu Íslands.``

Því nefndi ég þingmálin hér áðan að sum þeirra og öll málin sem snúa að réttarstöðu barna tengjast barnasáttmálanum á sinn hátt en með því að yfirfara íslensk lög með þessum hætti mundum við sjá greinilega í hverju er bótavant og það væri tilefni fyrir stjórnvöld að taka á í þessum efnum.

Eins og ég hef sagt er stuðningur við barnafjölskyldur á Íslandi mun minni en í nágrannalöndum okkar. Á sama tíma eru laun hér á landi lág, húsnæðiskostnaður mikill, langur vinnutími beggja foreldra, gæsluúrræði skólabarna ekki viðunandi og það hefur komið fram hjá sálfræðingum og uppeldisfræðingum að íslensk börn njóta almennt minni verndar og handleiðslu fullorðinna en tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Þess vegna má segja að fjölskyldan hafi setið á hakanum í íslensku samfélagi sem hreykir sér annars svo hátt af því að vera barnavinsamlegt og að vera hin barnmarga þjóð.

Í ýmsum tilvikum hefur verið tekið á, t.d. í málum um vernd barna og ungmenna þegar lagabálkurinn og barnaverndarmálin fluttist yfir til félmrn. Þá var starfsháttum barnaverndarráðs breytt og ýmsar umbætur gerðar. Árið 1995 var Barnaverndarstofa sett á laggirnar og annast hún daglega stjórn barnaverndarmála og hefur eftirlit með störfum barnaverndarnefnda og öðrum stofnunum fyrir börn og með vistunum barna o.fl.

Árið 1997, við hækkun lögræðislaga á sjálfræðisaldri í 18 ár, var barnaverndarlögunum líka breytt en ekki í miklum grundvallaratriðum, aðallega viðmiðunartölunum. Ég held að mörgum hafi brugðið 1996 þegar athugasemdir barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna bárust hingað. Í sumum tilvikum var ánægju lýst með ýmislegt hjá okkur varðandi aðbúnað barna en gerðar alvarlegar athugasemdir við aðra þætti framkvæmda. Flutningsmenn þessarar tillögu telja enn þá skorta að íslenskur réttur uppfylli ákvæði barnasáttmálans og að langt sé í land með að lagaframkvæmd sé í samræmi við anda sáttmálans.

Við höfum t.d. bent á að mjög mikilvægt sé að skipa barni talsmann til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls og það eigi að vera skylda en ekki bara heimild. Það er líka heimilt að skilja barn frá foreldrum sínum þegar velferð þess verður ekki tryggð með öðru móti. En þá er líka mjög mikilvægt að tekið sé á málum þannig að hagsmuna barnsins sé ávallt gætt. Sömuleiðis hvað varðar forsjársviptingu en það eru barnaverndarnefndir sem fara með málsmeðferð og vald í þeim efnum.

Einn þáttur sem hefur ekki verið gefinn mikill gaumur hjá okkur er að samkvæmt almennum hegningarlögum er heimilt að svipta 15 ára ungmenni frelsi með fangelsun eða varðhaldi. Í barnasáttmálanum er það tiltekið að barni sem svipt er frelsi skuli haldið aðskildu frá fullorðnum föngum, í íslenskum lögum er ekkert ákvæði sem verndar börn gegn því að vera vistuð með síbrotamönnum svo það sé nefnt.

Í nýju Barnahúsi, sem opnað var í október, var opnuð móttaka fyrir börn sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis. Þótti það vera mjög mikil framför því þar er að finna á einum stað möguleika til læknisskoðunar, ráðgjafar og stuðnings við börnin. Þótti mikilvægt að bæta við þessa þjónustu með sértækum meðferðarúrræðum sem börn ættu kost á eftir komu í Barnahúsið. Þarna á líka að vera skylda að skipa barni talsmann við ákveðnar aðstæður en ég minni á það að eins og við vorum hrifin af Barnahúsinu þá virðist sem grundvöllurinn undir starfsemi þess falli ef ekki næst samkomulag við dómsmálaráð um yfirheyrslur barna eins og verið er að leita eftir um þessar mundir.

Ég vil líka geta þess að með barnasáttmálanum er börnum veittur réttur til að láta í ljós skoðun sína um öll mál. Þessi réttur var tryggður í grunnskólalögunum frá 1991 en í nýrri grunnskólalögum, sem tóku gildi eftir fullgildingu sáttmálans, var þessi réttur afnuminn. Það er mjög mikilvægt að opna aftur formlegan vettvang fyrir nemendur grunnskóla að láta í ljós skoðun á málefnum sem varða þá sjálfa. Fyrir slíku máli mælti þingmaður Samfylkingarinnar, Svanfríður Jónasdóttir, í dag.

Það er líka bann við allri mismunun barna af erlendum uppruna og mikilvægt að börnum af erlendum uppruna séu tryggð sömu réttindi og íslenskum börnum. Við höfum fylgst með því í fréttum og umfjöllun að það þarf mjög að taka á í þeim málum. Það er líka eðlilegt og rétt að tryggja börnum flóttamanna sem óska eftir pólitísku hæli vernd og mannúðlega aðstoð. Það er reyndar þannig að löggjöf sem snýr að útlendingum á Íslandi er í molum hvað varðar t.d. flóttamenn og aðbúnað útlendinga sem hingað koma.

Ég gat þess í upphafi máls míns að Samfylkingin hafi verið að flytja nokkur stök réttinda- og umbótamál sem varða börn og réttindi barna auk þess sem við þingmenn Samfylkingarinnar flytjum þessa tillögu um að gera úttekt á barnasáttmálanum og íslenskum lögum til þess að uppfylla skilyrði barnasáttmálans. Það að við flytjum bæði einstök þingmál og tillögu þessa undirstrikar vilja Samfylkingarinnar til að bæta réttindi barna og að við á Alþingi horfumst í augu við það að mikið verk er óunnið hvað varðar börn og réttindi barna á Íslandi.

Það má líka nefna hvort barnasáttmálinn sjálfur ætti ekki að vera kennsluefni í grunnskólum og framhaldsskólum, hvort ekki væri rétt að þýða sáttmálann á tungumál sem innflytjendabörn skilja, dreifa honum til þeirra. Það eru aðallega frjáls félagasamtök eins og Barnaheill sem hafa látið sig varða þessi mál og hafa átt samvinnu um kynningu á barnasáttmálanum og látið prenta hann sérstaklega og dreifa. Samtökin Barnaheill hafa lýst yfir vilja til samvinnu við stjórnvöld og innan samtakanna hefur safnast sérþekking á málefninu sem er mjög mikilvægt að nýta.

Við eigum að sameinast um það á Alþingi að skoða aðstæður barna. Við eigum að skoða stöðu barna sem eiga undir högg að sækja, barna einstæðra foreldra, barna tekjulítilla foreldra, fatlaðra barna o.s.frv.

Nýverið kom fram á vegum Rauða krossins og var birt í fréttum skýrsla sem tekin verður til umræðu á Alþingi síðar í vikunni um fátækt á Íslandi. Það þýðir ekkert fyrir Alþingi að skella skollaeyrum við því að staða barna er mjög ólík eftir því úr hvers konar fjölskyldugerð börnin koma og mismunun gífurleg frá einni fjölskyldu til annarrar um börn og aðbúnað þeirra. Við eigum ekki að láta það viðgangast í þjóðfélagi okkar. Við eigum að veita meira fjármagn til barnaverndarmála og við eigum að tryggja að barnafólk njóti ákveðins stuðnings þannig að ólík aðstaða og fjárhagur bitni ekki á börnum þessa lands. Um það fjallar m.a. þessi tillaga og aðrar þær tillögur sem Samfylkingin hefur verið að flytja á þessum vetri og mun beita sér alvarlega í í framtíðinni. Aftur og aftur munum við koma fram sem rödd í þessum málaflokki og hvetja til þess að tekið sé á í málefnum barna.