Upplýsingamiðlun EFTA til væntanlegra ESB-landa

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 13:55:06 (4405)

2000-02-16 13:55:06# 125. lþ. 65.1 fundur 316. mál: #A upplýsingamiðlun EFTA til væntanlegra ESB-landa# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er mjög erfitt að gera grein fyrir máli sem þessu á jafnstuttum tíma og ég hef hér til umráða. Ég vil fyrst og fremst beina athyglinni að fyrsta lið þessara spurninga og reyna þá að gera grein fyrir hinum á þeim tíma sem ég hef síðar.

Í fyrsta lagi er ljóst að skv. 128. gr. EES-samningsins ber aðildarríki Evrópusambandsins að sækja um aðild að EES-samningnum jafnframt. Umsóknarríkjum um aðild að Evrópusambandinu er gerð grein fyrir EES-samningnum með margvíslegum hætti. Í fyrsta lagi hefur Ísland gert fríverslunarsamninga við flest umsóknarríkin ásamt hinum EFTA-ríkjunum. Við aðild þessara ríkja að ESB munu þessir samningar falla niður eins og kunnugt er. Síðan er endursamið um þessa samninga við Evrópusambandið. Í samningaviðræðum við umsóknarríkin og í sambandi við framkvæmd þeirra er þessum ríkjum gerð grein fyrir gildi EES-samningsins bæði af hálfu EFTA-skrifstofunnar í Genf og fastanefnda EFTA-ríkjanna. Á fundum sameiginlegra nefnda EFTA-ríkjanna og þriðju ríkja á grundvelli fríverslunarsamninga þessara aðila fara jafnan fram skoðanaskipti um samskiptin við Evrópusambandið. EFTA-ríkin hafa þá greint hinum væntanlegu aðildarríkjum frá samskiptum sínum við Evrópusambandið annars vegar á grundvelli EES og hins vegar hvað Sviss varðar á grundvelli hinna tvíhliða samskipta. Um leið hafa EFTA-ríkin minnt á að við aðild að Evrópusambandinu falli fríverslunarsamningurinn úr gildi og viðkomandi ríki þurfi að sækja um aðild að EES. Jafnframt hafa hin væntanlegu aðildarríki verið hvött til að kynna sér ákvæði EES-samningsins.

Í fyrra var 8 þús. diskettum dreift til landa sem EFTA hefur þriðju landa samninga við. Meginþorri þessa efnis fór til umsóknarlandanna. Disketturnar höfðu að geyma efni um fyrirkomulag viðskipta innan EFTA-ríkjanna og var þar ásamt öðru kynntur EES-samningurinn. Efninu var m.a. dreift til stjórnsýslunnar í umsóknarríkjunum og hagsmunaaðila atvinnulífsins. EFTA-nefndin um svokallaða viðskiptaliprun eða Trade Facilitation hefur um þessar mundir til umfjöllunar möguleika á að halda málþing í umsóknarríkjunum með hagsmunaaðilum atvinnulífsins um svonefnda viðskiptaliprun. Ég vænti þess að af þessu málþingi geti orðið og við erum hlynnt því.

Um þessar mundir er unnið að því að færa efni um þetta mál á heimasíðu EFTA og verður uppfærslan kynnt umsóknarríkjunum.

Í öðru lagi átti ráðgjafarnefnd EFTA fund í Vaduz þann 3. og 4. nóvember sl. með fulltrúum vinnumarkaðarins frá öllum umsóknarríkjunum þar sem kynnt var starfsemi EFTA, EES-samningurinn og tvíhliða samningur Sviss og ESB.

Í þriðja lagi átti þingmannanefnd EFTA fund 30. til 31. október 1997 með þriðju ríkjum sem þá höfðu gert fríverslunarsamning eða samstarfsyfirlýsingu við EFTA-ríkin.

Í fjórða lagi er fastanefndum umsóknarríkjanna í Brussel gerð grein fyrir EES-samningnum. Norðurlöndin eiga á ýmsum sviðum reglulega fundi með Eystrasaltsríkjunum og sérstakir fundir hafa verið haldnir með þeim um stækkun ESB og Ísland og Noregur taka þátt í þessum fundum.

Í fimmta lagi eru þessi mál rædd reglulega við Evrópusambandið og hefur meiri aðgangur EFTA-ríkjanna að samningaviðræðunum, með vísan til áðurnefndrar 128. gr. EES-samningsins, verið eitt af meginkeppikeflum EFTA-ríkjanna á undanförnum árum.

Í sjötta lagi er sérhvert tækifæri notað í tvíhliða samskiptum EES/EFTA-ríkjanna og umsóknarríkjanna til að kynna EES-samninginn. Slík tækifæri eru bæði notuð í tengslum við fundi embættismanna og líka ráðherra.

Loks ber að nefna að Ísland hefur á undanförnum árum tekið vaxandi þátt í störfum nefndarinnar um innri markaðsmál eða svokallaðrar ÍMARK-nefndar sem hefur m.a. það hlutverk að kynna Evrópurétt og EES-rétt í stjórnsýslu EES-ríkjanna. EFTA-ríkin fengu tiltölulega nýlega rétt til setu í þessari nefnd og þótti það mjög mikilvægt framfaraskref vegna kynningar á EES-samningnum.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum, ég vildi gjarnan hafa haft mun meiri tíma til þess að kynna þetta mál. Ég vildi gjarnan fá tækifæri til að gera það í hv. utanrmn. því ég tel að það sé rétti vettvangurinn til þess og mér er gjörsamlega ómögulegt að gera fullnægjandi grein fyrir þessu máli á þessum stutta tíma.