Breyting á áfengiskaupaaldri

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:05:44 (4409)

2000-02-16 14:05:44# 125. lþ. 65.2 fundur 323. mál: #A breyting á áfengiskaupaaldri# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. 5. júní 1998 samþykkti Alþingi breytingar á áfengiskaupalögum. Hv. allshn., undir forustu núv. dómsmrh. og þáv. formanns nefndarinnar, Sólveigar Pétursdóttur, beitti sér þá fyrir ákvæði til bráðabirgða við þau lög þess efnis að dómsmrh. skipi nefnd sem hefði það verkefni að kanna hvort æskilegt væri að breyta áfengiskaupaaldri hér á landi. Í þessu ákvæði til bráðabirgða var dómsmrh. falið að skipa nefnd sem hefði þetta verkefni og var viðfangsefni nefndarinnar lýst svo:

1. Skilgreindir verði kostir og gallar breytinga á áfengiskaupaaldri.

2. Könnuð verði reynsla annarra þjóða sem breytt hafa áfengiskaupaaldri.

3. Kannað verði hvernig efla þyrfti forvarna- og eftirlitsstarf til að stuðla að jákvæðum áhrifum slíkra breytinga og hvernig standa þyrfti að undirbúningi.

4. Metin verði áhrif þess til lengri og skemmri tíma að færa áfengiskaupaaldur niður í 18 ár.

5. Metið verði hvort rétt væri að færa áfengiskaupaaldurinn tímabundið niður í 18 ár til að kanna reynslu slíkra breytinga eða hvort eingöngu verði miðað við að færa aldurinn úr 20 í 18 ár að því er varðar létt vín og bjór.

6. Meta hvort rétt væri að skoða samhliða slíkri breytingu að færa aldurinn til ökuleyfis úr 17 í 18 ár og að lækka leyfilegt áfengismagn í blóði 17--20 ára við akstur í 0 prómill.

Í mars 1999, eða hálfu ári eftir að dómsmrh. átti samkvæmt lögunum að hafa skilað skýrslunni til Alþingis, spurði ég þáv. dómsmrh. Þorstein Pálsson um stöðu málsins. Þá kom í ljós að ráðherra hafði ekki skipað nefndina fyrr en þremur til fjórum mánuðum eftir að hún átti að skila niðurstöðu sinni til Alþingis. Ég skil vel að málið er vandmeðfarið og ýmsar úttektir og athuganir þurfi að gera og meta t.d. reynsluna hjá nágrannaþjóðunum sem fyrir löngu síðan hafa lækkað áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár til samræmis við þau réttindi sem ungt fólk á þessum aldri hefur fengið. Nú, um einu ári eftir að þáv. dómsmrh. var spurður um málið, bólar enn ekkert á umræddri skýrslu. Mér finnst virðingu Alþingis miboðið með því að framkvæmdarvaldið virði ekki ákvæði laga sem hér eru sett en hæstv. dómsmrh. hafði lagafyrirmæli í áfengiskaupalögunum frá 1998 um að leggja málið fyrir Alþingi á tilteknum tíma. Hafi sá tími ekki verið nægjanlegur þá bar hæstv. ráðherra að óska eftir atbeina Alþingis til að fá framlengdan þann tímafrest sem Alþingi gaf ráðherra til að vinna verkið, þ.e. til október 1998. Nú er liðið eitt og hálft ár frá því ráðherra bar samkvæmt lögunum að leggja skýrsluna fyrir þingið.

Það hefur gerst áður að ráðherra hafi með frv. til laga óskað framlengingar á fresti sem Alþingi hefur gefið til tiltekinna verka. Í því sambandi minni ég á skaðabótalögin sem hæstv. ráðherra þekkir og skemmst er líka að minnast að hæstv. sjútvrh. greindi Alþingi frá því nú þegar þing kom saman í haust að skýrsla sem hann átti að vinna samkvæmt lögum um Kvótaþing væri ekki tilbúin. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra skýri líka fyrir Alþingi nú hvort einhver niðurstaða liggi fyrir varðandi viðfangsefni nefndarinnar og þá hver hún er. En til þess að fá svar við þessu og einkum hvers vegna, sem mér finnst ámælisvert, að ráðherra hafi ekki enn skilað þessari skýrslu eða gert grein fyrir af hverju, þá er þessi fyrirspurn lögð hér fram í þremur töluliðum.