Rannsóknir á tveimur sjóslysum

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:30:07 (4419)

2000-02-16 14:30:07# 125. lþ. 65.3 fundur 278. mál: #A rannsóknir á tveimur sjóslysum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um rannsóknir á tveimur sjóslysum og spurningarnar hljóða svo, með leyfi forseta:

,,1. Hvað líður rannsóknum á sjóslysunum þegar Vikartindur strandaði og Dísarfell sökk?

2. Hvenær má vænta niðurstöðu þeirra?``

Hér er um tvö skip að ræða sem voru undir erlendum fána og hefur nokkuð verið um það fjallað hér, allt frá því þessir válegu atburðir gerðust 1997. Sem betur fer varð ekki manntjón þegar Vikartindur strandaði en allur aðdragandi þess máls var nokkuð sérstakur og til mikillar umhugsunar fyrir íslensk stjórnvöld varðandi inngrip eða ákvarðanatöku þegar skipstjórnarmenn bregðast ekki rétt við.

Í annan stað vildi ég vitna til Dísarfells vegna þess að um það var nokkuð rætt í fjölmiðlum og m.a. vitnað til samgrn. varðandi það mál. Í Morgunblaðinu föstudaginn 11. apríl 1997 segir svo, með leyfi forseta:

,,Mörgum spurningum talið ósvarað.

Samgönguráðuneytið hefur ákveðið að fara fram á framhaldssjópróf vegna skips Samskipa, Dísarfells, sem fórst í byrjun mars. Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur þegar ritað Héraðsdómi Reykjavíkur bréf þar sem óskað er eftir að rannsókn verði haldið áfram.

,,Rannsóknanefnd sjóslysa hefur fylgst með málinu og óskar nú frekari upplýsinga. Við teljum frekari rannsókn nauðsynlega, bæði til að athuga forsögu málsins, hvert ástand skipsins hafi verið og hvort fullnægjandi viðgerð hafi farið fram á því, auk þess sem við viljum að reynt verði að skýra tildrög slyssins betur`` ...``

Þetta segir þáv. samgrh.

Vitnað er til Ragnhildar Hjaltadóttur, formanns rannsóknarnefndar sjóslysa þá, en hún segir, með leyfi forseta:

,,... að í erindi nefndarinnar til héraðsdóms segi m.a. að mjög mörgum spurningum sé ósvarað eftir fyrra sjópróf. Hún leggur þó áherslu á að með þessu sé nefndin á engan hátt að gefa í skyn að sjóslysið sé málum blandið.``

En það kemur líka fram í fréttinni, með leyfi forseta, að:

,,Ragnhildur kveðst ekki reiðubúin til að greina frá hvaða spurningar hafi vaknað, sem ekki hafi fengist svör við. ,,Oft eru teknar lögregluskýrslur áður en sjópróf eru haldin, þannig að rannsóknarnefndin og aðrir sem mæta í sjópróf geti undirbúið sig fyrir þau, en í þessu tilviki voru ekki gerðar skýrslur heldur farið beint í sjópróf. Þetta er fremur óvenjulegt, en fyrir vikið eru sjóprófin því frumyfirheyrsla og því er eðlilegt að spyrja þurfi aðila málsins betur,`` segir hún.``

Herra forseti. Þessar fyrirspurnir eru lagðar fram að gefnu tilefni. Eins og ég kom að í upphafi máls míns urðu þessi slys í apríl 1997 og ég verð að segja það að mér finnst nokkuð langt um liðið frá því að rannsóknir hófust aftur og frá því að þessi slys urðu. Ekki eru enn þá komin svör við þessum rannsóknum og ég tel að hér séu mál sem þurfi virkilega að taka mjög á.