Varðveisla sjaldgæfra hrossalita

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:42:43 (4424)

2000-02-16 14:42:43# 125. lþ. 65.5 fundur 317. mál: #A varðveisla sjaldgæfra hrossalita# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég held það hafi verið hæstv. landbrh. sem sagði einu sinni í ræðu að hátindurinn á sköpunarverkinu væri íslenski hesturinn og hefur sá mæti piltur vafalaust sagt margt vitlausara en það. Ég held fullyrða megi að íslenski hesturinn sé einstakur. Hann hefur verið ræktaður hér á landi í rösklega ellefu hundruð ár og á þeim tíma hefur hann ekki blandað blóði við nein önnur hrossakyn, a.m.k. innan lands. Meðal margra sérstakra eiginleika íslenska hestsins er ótrúleg litafjölbreytni. Það skiptir ákaflega miklu máli frá mörgum sjónarhólum að varðveita hana. Einn sérstakur litur er þó svo fágætur orðinn í stofninum að það má heita að það stappi nærri útrýmingu hans. Þetta er litförótt hross. Litförótt, herra forseti, er flókinn litur sem byggir á því að í feldi hrossins eru tvær mislitar háragerðir, dökk vindhár, oftast rauð, stundum brún eða mosótt, og síðan ljós undirhár. Hrossið endurnýjar hárið eftir mismunandi mynstri þannig að stundum er hvíti feldurinn áberandi en stundum hinn dökki og þess vegna eru þau litförótt. Þau skipta litum eftir árstíðum.

Merkar upplýsingar um stöðu þessa litbrigðis komu fram í Bændablaðinu í sumar en það er hygg ég eitt besta fagtímarit sem gefið er út hér á landi. Þar kom fram í grein eftir Pál Imsland sem hefur mikið skrifað um þetta örsjaldgæfa litbrigði innan hrossastofnsins að fjöldi litföróttra hrossa á landinu sé nú innan við 0,5%. Það þýðir að það eru ekki nema u.þ.b. 100 litföróttir hestar til í stofninum hérna. Þau eru ekki lengur til nema á örfáum bæjum og slæm staða litföróttra hrossa sést best á því að í dag er enginn litföróttur stóðhestur dæmdur eða sýndur innan lands. Þetta er auðvitað slæm staða, herra forseti, og ég tel að það væri markaðslegt og menningarlegt slys ef þetta merkilega litbrigði hyrfi úr hinum aldagamla íslenska hrossastofni. Nú veit ég að til er stofnverndarsjóður hrossaræktenda hér í landi og einhverri hungurlús hefur verið veitt úr honum til þess að viðhalda þessum stofni. En þar er hvergi nándar nærri vel að staðið. Það er ráðgjafarþjónusta Bændasamtakanna fyrir hönd landbrn., eins og ég skil hið flókna mynstur landbúnaðarstyrkja- og upplýsingakerfisins, sem fer með þetta mál fyrir hönd ráðuneytisins. Þess vegna hef ég lagt fyrirspurn til hæstv. landbrh., sem mörgum sinnum hefur haft uppi góð orð um eiginleika íslenska hestsins, hvort hann hyggist beita sér fyrir því að stofnanir hans, ráðgjafarþjónustan eða aðrar stofnanir sem honum tengjast, grípi til aðgerða sem geti tryggt það að litförótt hross hverfi ekki endanlega úr sögu íslensks landbúnaðar.