Varðveisla sjaldgæfra hrossalita

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:51:02 (4426)

2000-02-16 14:51:02# 125. lþ. 65.5 fundur 317. mál: #A varðveisla sjaldgæfra hrossalita# fsp. (til munnl.) frá landbrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að fjölbreytt litaafbrigði hjá íslenska hestinum er geysileg auðlind. Í skráningarkerfi Fengs sem er skráningarkerfi fyrir íslenska hestinn eru skráðir um 50 grunnlitir og litaafbrigði. Auk þess eru svo litaafbrigði til viðbótar við þetta, bæði nösótt og mismunandi skjótt og mismunandi sokkótt o.s.frv. Það eru því í rauninni miklu fleiri litarafbrigði en þessi. Þetta allt eru gífurleg verðmæti og hrossaræktendur eru meðvitaðir um þau. Í gegnum skráningu Fengs er nú hægt að fylgjast með því hvort tíðni þessara lita sé að breytast. Og það er alveg fyllilega ástæða til þess. Hér var nefndur litförótti liturinn sem sérstök ástæða er til að varðveita. Þetta er elsti upprunalegi litur dýra, hvort sem um er að ræða hross eða önnur dýr og alveg sjálfsagt að varðveita hann. Ráðherra minntist á að komin væri grunnupphæð til þess að styrkja varðveislu hans. Ég heyrði af einu litföróttu trippi norður í landi sem verið er að koma upp. Þetta er mjög merkilegt mál, herra forseti.