Varðveisla sjaldgæfra hrossalita

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:53:24 (4428)

2000-02-16 14:53:24# 125. lþ. 65.5 fundur 317. mál: #A varðveisla sjaldgæfra hrossalita# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. góðar undirtekir við þetta mál. Hann færði þó uggvænleg tíðindi inn í þessa umræðu sem mér voru a.m.k. ekki kunn áður enda er ég enginn sérstakur sérfræðingur um erfðir hrossalita. Hann sagði að erfðavísarnir sem stýra litföróttu væru ríkjandi og það þýðir auðvitað að enn meiri hætta er á ferðum og enn erfiðara að ná upp stofni þegar hann er orðinn svona ákaflega sjaldgæfur. Ég verð hins vegar að hryggja hæstv. ráðherra með því að ég gef nú lítið fyrir þessa 1 millj. sem komin er úr stofnverndarsjóði hrossaræktenda. Ef ég þekki rétt til þess máls þá á að skipta henni þannig að það á að veita fyrstu þremur stóðhestunum sem ná inn á landsmót 300 þús. kr. styrk. Það er allt of lítið, herra forseti. Það sem þarf auðvitað að gera er að reyna að ná upp myndarlegum og góðum graðhesti sem er litföróttur og hann er ekki enn til í landinu þó að vísu hafi frést af einum góðum hér norður í landi. Þannig er nefnilega, herra forseti, að það hefur mikil og lífleg umræða orðið um litförótta hrossastofninn á fréttarás Eiðfaxa. Þar hafa ýmsir menn komið fram með merkilegar upplýsingar. Þar sá ég t.d. að sennilega eini arfhreini litförótti stóðhesturinn um þessar mundir er ekki á Íslandi heldur í Þýskalandi. Það er sá ágæti graðhestur Hervar von Kramersbruch sem er undan Hjörvari frá Reykjavík, en hann varð heimsmeistari í elsta flokki stóðhesta fyrir nokkrum árum. Það kann því að vera nauðsynlegt, herra forseti, að hæstv. landbrh. beiti sér fyrir fjárframlögum, m.a. til þess að kaupa sæði undan þessum þýska litförótta stóðhesti inn í landið. Að öðru leyti, herra forseti, held ég að setja þurfi meira fjármagn í þetta heldur en hæstv. ráðherra hefur hér leitt inn í umræðuna og ég treysti engum betur en hæstv. ráðherra til þess að galdra það fram úr djúpum hirslum landbrn.