Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 15:01:49 (4431)

2000-02-16 15:01:49# 125. lþ. 65.6 fundur 331. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í júní sl. sendi Eftirlitsstofnun EFTA íslenskum stjórnvöldum tilkynningu um að stofnunin teldi ákvæði laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar ekki standast ákvæði EES-samningsins. Var íslenskum stjórnvöldum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins. Ekki lá í upphafi fullkomlega ljóst fyrir hvað það væri í lögunum sem Eftirlitsstofnun EFTA teldi stangast á við EES-samninginn. Í september sl. gerði stofnunin síðan nánari grein fyrir þeim atriðum sem hún taldi að skoða þyrfti í lögunum. Var íslenskum stjórnvöldum gefinn kostur á að tjá sig um þau atriði sem Eftirlitsstofnun EFTA var með til skoðunar. Einnig var haldinn óformlegur fundur íslenskra stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem rætt var um þau atriði sem stofnunin teldi að athuga þyrfti. Þau atriði eru: menningarlegt innihald, stuðningshlutfall, framleiðsla í öðru aðildarríki og kvöð um stofnsetningu sérstaks lögaðila.

Hvað menningarlegt innihald varðar þá kom fram í bréfi Eftirlitsstofnunar EFTA að styrkja þyrfti þann þátt laganna. Varðandi stuðningshlutfall gagnrýndi stofnunin að lögin gerðu ráð fyrir að dýrari kvikmyndir hlytu hlutfallslega hærra endurgreiðsluhlutfall. Þá kom fram að stofnunin teldi að endurgreiðsla kostnaðar ætti ekki að skerðast, jafnvel þótt 20% endurgreiðanlegs kostnaðar félli til í öðru aðildarríki EES-samningsins. Loks var gagnrýnt að lögin gerðu ráð fyrir að stofna þyrfti sérstakan íslenskan lögaðila utan um hvert verkefni sem hlyti endurgreiðslu.

Iðn.- og viðskrn. í samstarfi við fjmrn. og utanrrn. gekk í október sl. frá formlegu svari íslenskra stjórnvalda. Gerir svarið ráð fyrir að fallist sé á að endurskoða þurfi tiltekin ákvæði laganna hvað varðar þrjú atriði, þ.e. varðandi menningarlegt innihald, stuðningshlutfall og stofnsetningarkröfu. Ekki var í svarinu fallist á að sá hluti framleiðslu sem fram færi utan Íslands nyti endurgreiðslu.

Formlegt álit Eftirlitsstofnunar EFTA hefur ekki verið birt íslenskum stjórnvöldum. Ekki er því á þessari stundu hægt að ætlast til þess að fyrir liggi ákvarðanir um hvernig brugðist verði við því. Ég taldi hins vegar rétt að nota þetta tilefni til þess að skýra þingheimi frá stöðu málsins. Að teknu tilliti til þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur gagnvart EES-samningnum og þeirra atriða sem kunna að verða í formlegu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA, er ljóst að ríkisstjórnin hefur fullan hug á að stuðla að öflugri kvikmyndagerð hér á landi. Verða þau markmið höfð að leiðarljósi við endurskoðun laganna.