Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 11:26:34 (4448)

2000-02-17 11:26:34# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[11:26]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér aftur í ræðustól til að taka undir allt það sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði í tengslum við þessa jarðgangaáætlun. Hann sagði að afar skynsamlegt væri að fara þá leið að bjóða út þessi tvö verkefni sameiginlega sem nefnd eru sem valkostur númer eitt og tvö í þessu máli. Það er grundvallaratriði og undir það vil ég taka. Þetta er það mikil aðgerð að vænta má, eins og hér hefur komið fram hjá hæstv. samgrh., að tilboð geti verið 8--10% lægri þegar svo stór pakki er boðinn út í einu ef svo má að orði komast. Síðan verður það náttúrlega skoðað þegar undirbúningsvinnunni, rannsóknum og öðru er lokið, á hvorum staðnum verði byrjað. Ég ætla ekkert að fara að karpa um það enda held ég að ekkert sé því til fyrirstöðu að stórir verktakar sem kæmu að þessu verki byrjuðu bæði fyrir norðan og austan. Við munum þá samgleðjast, Norðlendingar og Austfirðingar, þegar þessi göng verða opnuð og að því kemur, sem verður vonandi sem allra fyrst og ekki seinna en á vordögum 2005 miðað við áætlanir um rannsóknir og svo framkvæmdir.