Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 11:27:54 (4449)

2000-02-17 11:27:54# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[11:27]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það ber að fagna því, sem er frekar nýtt hér í Alþingi, að tillögur um vegaframkvæmdir, að ég tali nú ekki um jarðgangagerðina, auki kærleik meðal þingmanna og samstöðu þeirra. Það er frekar nýtt. En tillögur hæstv. samgrh. um heildarramma í vegáætlun sýna metnað og framsækni. Það á bæði við um beinar ákvarðanir og stefnumörkun og fram undan eru spennandi verkefni.

Það er auðvitað lykilatriði í nútímaþjóðfélagi og þróun að vegaframkvæmdir séu unnar hratt og ákveðið. Líklega er ekkert eins arðbært í okkar samfélagi og að bæta samgöngur, stytta vegalengdina þannig milli byggða, breyta ímynd staða og losa um átthagafjötra. Það er því margt verkið að vinna.

Í stuttri ræðu hæstv. samgrh. vék hann að helstu þáttum. Ég vil nefna hér eitt í viðbót sem hæstv. ráðherra kynnti á blaðamannafundi skömmu fyrir þingfund í morgun. Hann vék að sérþætti í hugmyndum um jarðgangagerð sem tengist vegtengingu milli lands og Eyja. Því miður tók hæstv. iðnrh. svolítið forskot á sæluna á fundi á Dalvík í gær og fjallaði um þessa þætti vegáætlunar á undan hæstv. samgrh. Okkar ágæti hæstv. iðnrh. er svolítið ör í nýju ráðherraskónum sínum og lýsti því yfir á fundi á Dalvík --- það var endurleikið í útvarpi í morgun --- að hugmynd um vegtengingu milli lands og Eyja, þ.e. jarðgöng, væri úr sögunni.

[11:30]

Það er á miklum misskilningi byggt. Niðurstaða Vegagerðarinnar í mjög vel unninni skýrslu um mögleika vegtengingar milli lands og Eyja undirstrikar að þetta er tæknilega mögulegt. Hins vegar er bent á eins og annars staðar að framkvæma þurfi rannsóknir. Hæstv. samgrh. hefur staðfest að farið verði í þær rannsóknir. Áætlað er að það taki tvö til þrjú ár að vinna þær eða ámóta tíma og er ætlaður jafnframt til rannsókna á þeim jarðgöngum sem hafa nú verið sett í forgangsröð. Þess ber líka að geta að aldrei hefur verið talað um jarðgöng eða vegtengingu milli lands og Eyja sem hluta af vegáætlun heldur sérverkefni, nákvæmlega eins og Hvalfjörðinn og þess vegna er ekki ástæða til að fjalla um það á sömu nótum.

Þetta eru hlutir sem liggja fyrir og ber að fagna því að ráðherra hefur tekið ákvörðun um að fylgja eftir tillögum Vegagerðarinnar um rannsóknir á Eyjasvæðinu, freista þess að kanna þessa hugmynd til hlítar. Það byggist á því í tveimur stærstu þáttum að draga saman þekkingu um eldvirkni svæðisins, þ.e. svæðisins Mýrdalsjökull/Hekla/Vestmannaeyjar, og sú samantekt mun svara mörgum ósvöruðum spurningum í jarðsögu Íslands, jafnframt að gerð sé nánari úttekt og yfirferð á jarðskjálftamunstri svæðisins. Þetta eru lykill þess að hægt sé að meta möguleikana á þessari vegtengingu.

Áætlað er að jarðgöng milli lands og Eyja mundu kosta á bilinu 20--35 milljarða, þ.e. 18 km göng frá Krossi út í Eyjar um 20 milljarða en 26 km göng frá Seljalandsfossi út í Eyjar um 35 milljarða. Þetta er auðvitað með allri óvissunni og er liðlega 20% hærra á km en raunin varð í Hvalfirði. Um leið og óvissan minnkar, þ.e. ef niðurstöður rannsóknarinnar reynast jákvæðar, þá þéttist enn frekar möguleikinn á þessum hlutum. Jafnframt er bent á í skýrslu Vegagerðarinnar að kostnaður til að mynda við rekstur Herjólfs á 30 ára bili geti verið um 6--7 milljarðar, stofnkostnaður og aðrir þættir, þannig að allt er þetta til eðlilegrar skoðunar.

Benda má á að aðeins á hverju ári er greitt í flugfargjöld milli lands og Eyja u.þ.b. einn milljarður kr. Þetta er því fýsilegt til þess að fylgja þessu eftir og skoða ofan í kjölinn með eðlilegum rannsóknum okkar færustu vísindamanna hvað sé hagkvæmt bæði með tilliti til kostnaðar og auðvitað um leið öryggis.

Þetta eru mörg verkefni og ég fagna niðurstöðu ráðherra í því að bjóða samhliða út þessi tvö verkefni á jarðagangaleiðinni Siglufjörður/Ólafsfjörður, Reyðarfjörður/Fáskrúðsfjörður. Það er framsýn og mikilvæg ákvörðun sem ber að fagna. Við eigum að glíma við ýmis stór verkefni sem við þurfum að takast á við. Sum eru nokkuð traust innan vegáætlunar en önnur síður. Til að mynda er ljóst að tryggja þarf flýtingu á breikkun Reykjanesbrautar innan þeirrar vegáætlunar sem við höfum þegar fjallað um. Það þarf að tryggja uppbyggingu Suðurstrandarvegar milli Suðurlands og Suðurnesja, ekki síst með tilliti til breytingar á kjördæmaskipan og er auðvitað lykilatriði þegar kemur að kjördæmabreytingu að kjördæmið sé í einum hluta og það er ekki gert nema með því að byggja upp þennan veg. Það er grundvallarkrafa.

Í náinni framtíð verðum við að taka ákvörðun --- og ég tel fyrr en seinna --- um að fara bratt og fast í byggingu hálendisvega, Uxahryggi frá Vesturlandi inn á Suðurland, Kjöl norður, Sprengisand og hugsanlega Gæsavatnaleið til Austurlands. Þessir vegir mundu gjörbreyta öllu munstri í samgöngum Íslands og vegalengdum milli landsvæða og létta þannig róðurinn í því að halda landinu öllu í byggð. Þetta eru verkefni sem blasa við og við eigum ekkert að hika við að takast á við þau því að þarna er lykillinn að sátt og samlyndi í landi okkar um að nýta þá fjárfestingu sem er hringinn í kringum landið og þarf að nýtast þessu fámenna landi til fullnustu.