Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 11:36:18 (4450)

2000-02-17 11:36:18# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, EMS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[11:36]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 2000--2004. Ég mun í ræðu minni ekki fjalla sérstaklega um þá þáltill. en vísa til orða hv. þm. Kristjáns L. Möllers hvað það varðar en ég mun hins vegar nýta tíma minn til að fjalla fyrst og fremst um það fylgigagn sem með þessari þáltill. fylgir, þ.e. jarðgangaáætlun.

Það kom fram í máli hæstv. samgrh. að þessi skýrsla og niðurstaða hennar væri mat Vegagerðarinnar. Á það vil ég leggja sérstaka áherslu að hér er að sjálfsögðu skýrsla sem unnin er af Vegagerðinni og niðurstaðan er mat embættismanna Vegagerðarinnar. Að sjálfsögðu er hér skýrsla sem er mikilvægt gagn inn í það þarfa mál að fjölga jarðgöngum á Íslandi.

Hins vegar er ljóst að hin pólitíska umræða er eftir. Það er nauðsynlegt í því samhengi að rifja ýmislegt upp vegna þess að það er ekki í fyrsta skipti í dag sem rætt er um jarðgöng. Þann 24. okt. 1991 lagði ég fyrirspurn fyrir þáv. samgrh., hv. þm. Halldór Blöndal. Ein þeirra spurninga sem lögð var fyrir hæstv. ráðherra var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hyggst ráðherra framfylgja þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta kjörtímabili að framkvæmdir við jarðgöng á Austurlandi hefjist strax að loknum framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum?``

Þáv. samgrh. svaraði spurningunni þannig, með leyfi hæstv. forseta:

,,Tillaga um langtímaáætlun í vegagerð var lögð fyrir Alþingi á sl. vetri en ekki samþykkt. Tillagan var samin af starfshópi sem skipaður var af þáv. samgrh. Í hópnum sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna auk fulltrúa samgrn. og Vegagerðar. Í tillögunni voru fjögur jarðgangasvæði tekin með, þ.e. lúkning Ólafsfjarðarmúla, endurbætur Strákaganga, Vestfjarðagöng og Austfjarðagöng. Vestfjarðagöngum var þar raðað á undan Austfjarðagöngum og tóku þau til sín meginhluta fjármagns á 1. og 2. tímabili áætlunarinnar. Austfjarðagöng fengu nokkurt fjármagn til undirbúnings og rannsókna á 1. tímabili 1991--1994 en framkvæmdafé ekki fyrr en á 2. tímabili 1995--1998. Samkvæmt þessu áttu framkvæmdir við Austfjarðagöng að hefjast seinni hluta 2. tímabils, þ.e. á árunum 1997--1998. Nokkur umræða fór fram um tillöguna þó að ekki yrði hún afgreidd.`` --- Herra forseti. Samgrh. hélt áfram og sagði: --- ,,Í þeim umræðum var ekki hróflað við þeirri meginstefnu í jarðgangagerð sem hér var lýst.``

Á þetta verður því að sjálfsögðu að líta á sem ígildi samþykktar. Margir hv. þingmenn hafa vitnað til svokallaðs heiðursmannasamkomulags sem gert var í þessum efnum og hefur í raun og veru alveg fram á þessa stund ekki staðið á því að ýmsir þingmenn hafi verið reiðubúnir til þess að staðfesta það.

Herra forseti. Áfram heldur þáv. samgrh.:

,,Í fyrsta lagi hefur Alþingi markað þá stefnu að Austfjarðagöng verði næsta jarðgangaverkefni á eftir Vestfjarðagöngum. Verða rannsóknir og annar undirbúningur á næstu árum við það miðuð.``

Örlitlu síðar segir ráðherrann, með leyfi herra forseta:

,,Í öðru lagi gerir tillaga um langtímaáætlun sem í var vitnað ráð fyrir verkbyrjun í Austfjarðagöngum á árunum 1997--1998.``

Herra forseti. Nú er árið 2000 og enn hafa ekki hafist framkvæmdir við Austfjarðagöng. Því er ekki sérkennilegt að þingmenn Austurlands geri við það athugasemdir hver niðurstaðan er í skýrslu Vegagerðarinnar. Við munum hins vegar halda því áfram eins og gert hefur verið ætíð af hálfu Austfirðinga að leita sem mestrar samstöðu og ég vil taka undir þau orð sem ýmsir hv. þm. hafa sagt, að það er afar mikilvægt að við þingmenn landsbyggðarinnar förum ekki að kljást um það hvar eigi að byrja eða hvaða göng eigi að vera næst.

Hins vegar er ljóst að hlutur Austurlands í niðurstöðu Vegagerðar er óviðunandi. Fyrst og fremst hefur verið horft til fjögurra verkefna í því samhengi. Í fyrsta lagi hefur verið rætt um að rjúfa einangrun Vopnafjarðar með göngum undir Hellisheiði, í öðru lagi að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar og þá hafa ýmsir möguleikar verið ræddir, í þriðja lagi að rjúfa fjallferð yfir Oddsskarð og gera ný göng undir Oddsskarð, þ.e. að tengja Norðfjörð og Eskifjörð og í fjórða lagi milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Ljóst er þegar horft er til fortíðar --- og það er auðvitað meginásteytingarsteinninn að nú skuli vera litið á þetta mál eins og við séum að byrja á núllpunkti. Það er að sjálfsögðu óheiðarlegt í því sem á undan er gengið og vitna ég þá aftur til þess sem ég las úr svörum þáv. hæstv. samgrh.

Herra forseti. Ég mun ekki fara yfir einstök verkefni. Ég vil aðeins segja að öll þau verkefni sem nefnd eru í skýrslu Vegagerðarinnar eru að sjálfsögðu mjög brýn og það er verkefni okkar að ná sem allra mestri samstöðu um verkin. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að það ber að sjálfsögðu að horfa til þess að bjóða út fleiri en eitt verk í einu og leita allra þeirra leiða sem hægt er til að spara því að svo brýnt er að unnið sé í byggðamálum á þennan hátt að það ber að leita allra leiða, allra færra leiða, til að flýta verkefnum sem kostur er.

Herra forseti. Ég vil að lokum taka undir með hv. þm. Jóni Kristjánssyni, að við þingmenn Austurlands munum að sjálfsögðu halda sjónarmiðum okkar fram og gera allt sem í valdi okkar stendur til þess að hlutur Austurlands verði meiri en hér kemur fram. Það væri t.d. hugsanlegt að flokka framkvæmdirnar örlítið öðruvísi niður. Mér sýnist margt benda til þess að Vegagerðin hefði jafnvel innan þess ramma sem henni var settur við gerð skýrslunnar getað gert það á skilmerkilegri hátt vegna þess að einkunnir eru nefndar sem gefa á hverri framkvæmd en þær sjást ekki í skýrslunni.

Forgangshópurinn er til staðar. Það er spurning og það er sláandi að öll önnur verkefni eru sett í sama hóp. Herra forseti. Ég vil hafa það lokaorð mín að það er óeðlilegt að flokka þann hóp ekki nánar niður.