Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 12:40:34 (4459)

2000-02-17 12:40:34# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir lýsa ánægju með þá metnaðarfullu vegáætlun sem hæstv. samgrh. leggur hér fram og eins lýsa ánægju með faglega unnið verk starfsmanna Vegagerðarinnar.

Hér er til umræðu eitt af stærstu málum þingsins. Það er eitt af stærstu málum annars vegar vegna þess að hér er um mikla fjármuni að tefla en einnig vegna þess að samgöngur eru grundvöllur byggðar í landinu. Þær eru grundvöllur þess að fólk geti notið og nýtt landið. Þar af leiðandi eru úrlausnarefni í þessum málaflokki afskaplega mörg og sum erfið og viðkvæm en rétt er að hafa í huga að ytri aðstæður geta leitt til breytinga og eins og þróun hefur verið á síðustu árum þá hafa breytingar verið afskaplega örar og hraðar með þeim afleiðingum að það hefur í rauninni komið niður á þessum merkilega málaflokki samgöngum.

Ég vil nefna þrjú atriði sem hljóta að hafa og hafa haft verulega mikil áhrif á þennan málaflokk. Það er í fyrsta lagi sú byggðaþróun sem átt hefur sér stað á síðustu árum þar sem straumur fólks utan af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins hefur verið gífurlega mikill og skapað ótrúlega mikla vaxtarverki á höfuðborgarsvæðinu með þeim afleiðingum að samgöngukerfið, gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins er löngu krosssprungið vegna þess að hröðunin hefur verið miklu örari en nokkurn óraði fyrir. Eins má segja að það hafi komið vaxtarverkir með öfugum formerkjum úti á landsbyggðinni þar sem íbúafjöldinn hefur dregist saman og þar af leiðandi hefur það verið notað sem röksemd gegn vegalagningu.

Annað sem snertir hugmyndafræðina þarna á bak við er síðan ný sjónarmið hvað varðar byggðaþróunina eða byggðastefnu, þ.e. ákvörðun um fasta og öfluga byggðakjarna úti á landsbyggðinni sem þó eiga sín upprekstrarlönd og mikilvægi þess að tengja slíka byggðakjarna saman, en ekki síður að efla samgöngur í upprekstrarlöndum eða baklandi slíkra byggðakjarna. Þetta eru sjónarmið sem hafa verið að ryðja sér til rúms í hinni pólitísku umræðu á síðustu árum og samgöngustefnan hlýtur að taka mið af þessu. Ég tel að í þeirri ágætu og sögulegu jarðgangaáætlun sem hér er til umræðu og er kynnt liggi m.a. þetta sjónarmið til grundvallar, þ.e. að stækka byggðakjarna með nútímalegum samgöngubótum.

Herra forseti. Í þriðja lagi hlýt ég svo að nefna hinn gífurlega vöxt í bílaeign landsmanna sem í lok árs 1999 var um 158 þúsund bílar og hafði þá bílum fjölgað um 23 þúsund á fjórum árum. Það er gífurlegur vöxtur hjá ekki stærri þjóð og virðumst við vera að slá enn eitt heimsmetið miðað við höfðatölu, þ.e. í bíleign á hvern íbúa. Allt veldur þetta miklum vanda og má segja að samgönguæðar landsins hafi í rauninni ekki náð að aðlagast þessum vaxtarverkjum og fylgja þróuninni eftir. Ég tel að með þeirri áætlun sem hér er til umræðu sé verið að reyna að bregðast faglega við þessum vanda.

Ég vil jafnframt fagna nýjum áherslum sem taka mið af breytingum í atvinnuháttum, ekki síst með hliðsjón af ferðaþjónustu, eins og áætlunum um kerfisbundna lagningu reiðvega.

Herra forseti. Hér er mikill vandi og mörg brýn úrlausnarefni. Það kunna svo sem að vera skiptar skoðanir um það hvernig skuli forgangsraða og finna lausnir. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að ná um það þokkalegri sátt og tek ég undir þá fagnaðarbylgju sem hér var lýst með viðbrögðum fyrstu ræðumanna í þessari umræðu. Þó má skynja að undir þeirri fagnaðarbylgju fari menn að skoða samgönguæðarnar nokkuð hver út frá sínu kjördæmi og er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það.

[12:45]

Herra forseti. Ég vil beina nokkrum spurningum til hæstv. samgrh. til að varpa frekara ljósi á þessa annars ágætu umræðu. Við erum hér að ræða um vegáætlun. Til kasta þingsins kemur svo flugáætlun og hafnaáætlun. Allar þessar áætlanir snerta í rauninni samgöngubætur, samgöngur um landið, en segja má að hver þessara áætlana lifi sjálfstæðu lífi og því vil ég í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra í tilefni þess að 9. mars 1998 var samþykkt hér þál. á hv. Alþingi, borin upp af Magnúsi Stefánssyni og fleiri þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum, þar sem Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipa nefnd til að kanna hvort samræma megi gerð áætlana um uppbyggingu samgöngumannvirkja í eina samræmda samgönguáætlun. Ég tel þetta vera afskaplega skynsamlega ályktun og vek athygli á því að hún var samþykkt á hv. Alþingi og spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi í hyggju að bregðast við þeirri ályktun.

Í annan stað, herra forseti, beini ég eftirfarandi spurningu til hæstv. samgrh.: Nú snýst vegáætlun eins og nafnið gefur til kynna um samgöngur og vegi landsins. Hún snertir líka ákveðna hugmyndafræði sem einkennir okkur Íslendinga og kemur fram í tölum um bílaeign en segja má að þar stangist að sumu leyti á einkabílisminn annars vegar og svo almenningssamgöngur hins vegar. Því hefur verið haldið fram að Íslendingar standi nokkuð höllum fæti hvað varðar almenningssamgöngur, einkum í þéttbýlinu, og ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi í hyggju að beita sér fyrir einhverjum aðgerðum á því sviði með þeim rökum að það kunni að leiða til sparnaðar, í því kunni að felast öryggisatriði, minni þörf fyrir uppbyggingu samgöngumannvirkja og síðast en ekki síst mun minni mengun. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi í hyggju að beita sér fyrir slíku sem samgöngustefnu.

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hafi í hyggju að líta til þess að vandi höfuðborgarsvæðisins, sveitarfélaganna hér, hefur m.a. verið sá að hvert sveitarfélag horfir eiginlega á sína þúfu við úrlausn sinna vega og samgönguleiða. Í nokkrum tilvikum hafa sveitarfélög ekki náð að koma sér saman þannig að heildarsýn yfir allt höfuðborgarsvæðið hefur skort. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því?

Þá spyr ég í fjórða lagi hvort hæstv. ráðherra mundi fallast á það ef einkaaðilar bjóðast til þess að tvöfalda Reykjanesbrautina á næstu þremur til fjórum árum og lána ríkissjóði það fjármagn sem til þess þarf þannig að flýta megi þeirri miklu samgöngubót sem tvöföldun Reykjanesbrautar er.

Að lokum spyr ég svo hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir breytingum í áherslum hvað varðar Suðurstrandarveginn svonefnda í ljósi þess að Suðurland og Suðurnes eru nú að verða að einu kjördæmi og Suðurstrandarvegurinn hlýtur því að vera ein af forsendum fyrir samruna þeirra landsvæða.