Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 12:48:59 (4460)

2000-02-17 12:48:59# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[12:48]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Hér eru mikilvæg mál á dagskrá og má glöggt heyra af ræðum þingmanna að hér eru hugðarefni þeirra á ferð, svo margir hafa tekið þátt í umræðunum. En það er auðvitað ekkert nýtt á Alþingi að menn vilji ræða um vegamálin.

Hér liggur fyrir jarðgangaáætlun sem er mjög merkilegt plagg og ánægjulegt að sjá hversu fagmannlega er að verki staðið í þeirri vinnu sem lögð hefur verið í skýrslugerðina. Sú sem hér talar er alin upp við að nota jarðgöng gegnum Stráka við Siglufjörð og þau jarðgöng gjörbreyttu á sínum tíma samgöngum við Siglufjörð. Ég verð að segja að mér rennur blóðið til skyldunnar og er það alveg sérstakt ánægju- og gleðiefni að nú skuli vera áformað að meðal fyrstu verkefna í jarðgangaáætlun verði göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Með því fæst mjög mikilvæg tenging Siglfirðinga við Eyjafjarðarsvæðið og það er auðvitað fyrirsjáanlegt að það getur orðið mjög öflugt atvinnusvæði í framtíðinni.

Ég vík nú að þeirri vegáætlun sem hér er til umræðu. Það eru einkum tvær framkvæmdir sem ég legg mikla áherslu á við þá endurskoðun sem nú stendur yfir, annars vegar tvöföldun Reykjanesbrautar sem er á langtímaáætlun, en það er ljóst að brýnt er að flýta breikkun brautarinnar og leita þá allra leiða til að það geti orðið á sem skemmstum tíma innan þeirrar áætlunar sem við búum við í dag. Hins vegar nefni ég tvöföldun Vesturlandsvegar milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar sem ljóst er að þolir enga bið. Það verk er enn ekki komið inn á vegáætlun. Til þess að nefna tölur til stuðnings máli mínu nefni ég að umferðin um þann veg var árið 1999 milli 15 og 16 þúsund bílar á dag og yfir sumarmánuðina á síðasta ári var meðaltalsumferðin milli 17 og 18 þúsund bílar á dag. Það er því alveg ljóst að þessi vegur er sprunginn. Töluvert mikið er um slys á þessum vegi og framúrakstur er tíður. Það breytti auðvitað öllu þegar Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun og umferðin jókst miklu hraðar en nokkur hafði búist við og margfalt hraðar en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Hér horfumst við því í augu við verkefni sem er mjög brýnt úrlausnar. Þar að auki eru nú mjög stór áform um uppbyggingu í Mosfellsbæ. Ef þau áform ganga eftir verður þar um að ræða hverfi með nokkur þúsund manns.

Þessi framkvæmd sem um er að ræða kostar á bilinu --- ég er ekki með nákvæmar tölur --- milli 600 og 1.000 millj. kr.

Ég vil gjarnan heyra viðbrögð samgrh. við þessu verkefni alveg sérstaklega en ég ítreka það að hér er um verkefni að ræða sem þolir enga bið.