Fátækt á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 13:45:59 (4465)

2000-02-17 13:45:59# 125. lþ. 66.94 fundur 324#B fátækt á Íslandi# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hún var ekki merkileg málsvörn hæstv. forsrh. við þeim veruleika sem við blasir í íslensku samfélagi. Í fyrsta lagi vildi hæstv. ráðherra gera lítið úr niðurstöðum þeirrar könnunar sem Rauði krossinn, þessi merku líknarsamtök, hafa staðið fyrir, þessi samtök sem eru í návígi við þessa sömu eymd. Það er ekki aðeins Rauði krossinn sem hefur leitt þessar staðreyndir fram á vettvang heldur einnig háskólinn að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins í Íslensku leiðinni, eða hinni íslensku neyð. Veruleikinn er bara þessi hvað sem hæstv. ráðherra álítur.

Í annan stað fór hæstv. ráðherra í gamlan samanburðarleik og vildi láta líta svo út að Samfylkingarflokkarnir hér forðum daga, sennilega á ríkisstjórnarárunum 1988--1991, hefðu gert verr. Að vísu minni ég á að það voru þeir flokkar sem komu á þeirri þjóðarsátt sem við búum enn við í dag og tryggir þann stöðugleika sem hefur verið eiginlega grundvöllur þess góðæris sem við höfum búið við að meðaltali.

Hæstv. forseti. Það er því ljótt þegar menn horfast ekki í augu við þennan veruleika en skýringin á honum er auðvitað einföld og skýr. Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa það að meginmarkmiði að auka mun, undirstrika og efla sérhyggju og auðhyggju í samfélaginu og það er óhjákvæmileg niðurstaða af slíkri stjórnarstefnu að þeir sem minna mega sín detti á milli og verði út undan.

Ég vil segja að lyktum, herra forseti, af því að ég og hæstv. forsrh. vorum saman í ríkisstjórn á árunum 1993 og 1994, á erfiðleikaárum í íslensku efnahagslífi, að í þessari könnun kemur fram að þeir hópar sem þá var talað við á þeim tíma áttu sannarlega erfitt og það átti þjóðin öll. Á hinn bóginn hafa þeir ekki upplifað það góðæri sem þjóðin almennt virðist hafa fengið til sín. Ég spyr: Er hæstv. ráðherra mjög stoltur af þeim verkum sínum á umliðnum fimm árum að hafa ekki komið bættum kjörum til þessa fólks sem helst þurfti?