Fátækt á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 13:48:12 (4466)

2000-02-17 13:48:12# 125. lþ. 66.94 fundur 324#B fátækt á Íslandi# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Málshefjandi spurðist fyrir um afnám tekjutengingar barnabóta og hvort samstaða væri í ríkisstjórninni um það verkefni. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að afnema tekjutengingu barnabóta. Hins vegar er það stefna hennar að draga úr henni. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að rétt sé og eðlilegt að hafa tekjutengingu til þess að tryggja að dreifing opinbers fjár til þeirra sem peningana eiga að fá verði með þeim hætti að meiri hluti eða stærri hluti þeirra renni til tekjulægri en ella væri ef engin tekjutenging væri við lýði. (Gripið fram í.) Það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka upp ótekjutengdan hluta barnabóta sem yrði viðauki við þær barnabætur sem eru í dag, svonefnd barnakort.

Í öðru lagi spurði fyrirspyrjandi um afnám tekjutengingar vegna tekna maka hjá öryrkjum. Það sama er um það efni að segja og hitt. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að afnema tekjutengingu. Það var stefna þeirrar ríkisstjórnar sem Alþfl. og Alþb. sátu síðast saman í að taka upp tekjutengingu að öllu leyti á öllum sviðum bóta. Það var gert með þeim rökum að með tekjutengingu dreifðu menn takmörkuðu fé ríkisins til þess hóps sem átti að fá féð á þann veg að stærri hluti fjárhæðarinnar rann til hinna tekjulægri (GÁS: Þú verður að byrja á að ...) en ella hefði orðið ef engin tekjutenging væri við lýði. Ef tekjutenging yrði afnumin við tekjur maka öryrkja, þá mundi það leiða til þess að skerða þyrfti bætur þeirra öryrkja sem eiga tekjulága maka til þess að bæta tekjur þeirra öryrkja sem eiga tekjuhærri maka. (Gripið fram í.) Og það er tilfærsla sem ekki er eðlileg. (Gripið fram í: Komdu með annan.)