Fátækt á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 13:50:24 (4467)

2000-02-17 13:50:24# 125. lþ. 66.94 fundur 324#B fátækt á Íslandi# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ekkert samfélag manna er laust við fátækt og ekki heldur okkar. Fátæktin á Íslandi hefur vissulega minnkað mikið á undanförnum árum. Við eigum líka betri möguleika en flestar aðrar þjóðir til að kljást við slík mál. Grenndartengslin eru það sterk í okkar landi að fólk getur síður týnst og gleymst utan samfélagsins en í stærri þjóðfélögum. Við höfum sem betur fer næga vinnu og við getum tekið betur á með fólki, hjálpað þeim sem minnst mega sín af hvaða ástæðum svo sem það má sín minnst, til að takast á við kröfur lífsins. Bjargarleysi fólks megum við alls ekki gera að pólitísku bitbeini eins og örlar hér á því miður og alls ekki draga störf Rauða krossins inn á slíkt plan.

Hvernig eigum við hins vegar að bregðast við ýmsum þeim skýrslum og vísbendingum sem við höfum fengið um umkomuleysi og bjargarleysi í okkar landi? Ég hygg skynsamlegt að skipuð verði samstarfsnefnd þingflokkanna allra eða stjórnarflokkanna á Alþingi og frjálsra félagasamtaka eins og Rauða krossins, Þjóðkirkjunnar og Barnaheilla. Slík nefnd gæti skilað aðgerðaáætlun síðar á árinu og auðveldað öllum aðilum að lækna þessa meinsemd með þjóðinni, fátæktina og úrræðaleysið, vonleysið sem nokkur hópur meðal okkar þjóðar býr við. Með öllum tiltækum ráðum þarf að sprengja fólki leið út úr þeim vítahring erfiðra aðstæðna hvernig svo sem þær eru til komnar. Það er hlutverk okkar og það er skylda okkar. Ég minni á það einnig á afmælisári kristninnar í landinu.