Fátækt á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 13:57:17 (4470)

2000-02-17 13:57:17# 125. lþ. 66.94 fundur 324#B fátækt á Íslandi# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. ,,Hefur þú hugsað um hvað verður um þig ef þú greinist með alvarlegan sjúkdóm eða ef þú fatlast skyndilega?`` Þessi spurning glymur í eyrum okkar landsmanna í sjónvarpinu hvert kvöld í auglýsingu frá tryggingafélagi, tryggingafélagi sem gerir út á réttmætan ótta fólks um afdrif þess við heilsubrest. Þetta er nýlunda.

Það er hart að þurfa að ræða hér eina ferðina enn um fátæktina í samfélagi okkar. Því miður sýnir hver könnunin af annarri að ekki verður um villst að ákveðnir hópar búa við ömurleg kjör.

Við í Samfylkingunni og samtök öryrkja höfum margbent á að örorka er ávísun á fátækt. Velferðarkerfi okkar stendur ekki lengur undir nafni eins og vísindaleg úttekt Félagsvísindastofnunar um Íslensku leiðina staðfestir og nú aftur þessi könnun Rauða krossins. Frjáls tryggingafélög eru því þegar farin að gera út á réttmætan ótta fólks því það er ekki almennilega tryggt í almannatryggingunum. Þær standa ekki undir nafni lengur.

Hvað gerist ef einstaklingur greinist með alvarlegan sjúkdóm eða fatlast skyndilega? Hann ert settur út á guð og gaddinn. Hann og fjölskylda hans er sett út á kaldan klaka. Velferðarkerfi okkar er svo illa komið að það dæmir fatlað og veikt fólk og fjölskyldur þeirra til fátæktar. Örorka er ávísun á fátækt. Það er margbúið að benda á leiðir til úrbóta. Tillögurnar liggja fyrir í mörgum þingmálum í þinginu. Velferðarkerfi okkar verður að standa undir nafni ef við ætlum að teljast til siðmenntaðra þjóða. Vilji til úrbóta er allt sem þarf, herra forseti.