Fátækt á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 13:59:29 (4471)

2000-02-17 13:59:29# 125. lþ. 66.94 fundur 324#B fátækt á Íslandi# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Könnun Rauða krossins er illa unnin, aðferðafræðin er röng. Það eru leiðandi spurningar. Fólk er spurt: Hverjir hafa það verst? Þeir komast ekki hjá því að svara hverjir hafa það verst. Það er sama hvernig staðan bætist, það skal alltaf nefna hverjir hafi það verst. Svo er 71 sérfræðingur sem starfar við kerfið spurður að því hvað sé að. Eiga þeir að segja að það hafi batnað? Eiga þeir að segja að við þurfum ekki eins miklar fjárveitingar? Nei. Að sjálfsögðu benda þeir á enn meiri vanda. Þetta er nefnilega hluti af velferðarútgerðinni (ÖJ: Þetta eru dylgjur.) sem er kannski hættulegasta aðförin að velferðarkerfinu.

Skýrslan er blanda af óvísindalegri könnun, upplýsingum frá Tryggingastofnun og skýrslu Stefáns Ólafssonar og persónulegum skoðunum skýrsluhöfunda. (Gripið fram í: Er þá ekkert vandamál?) Ekki er tekið á vandamálum sem stafa t.d. af gjaldþrotum eða uppáskriftum, sem eru umtalsverð, og það er heldur ekki tekið á því að helmingur af bótum landsmanna kemur frá lífeyrissjóðunum og þær hækka eins og verðlag en ekki eins og laun. Það er þáttur í sátt sem gerð var fyrir 15 árum til þess að bjarga stöðu lífeyrissjóðanna. Á þessu var ekki tekið.

Það er talað um félagslega einsemd en það er ekki rætt um það að hún stafar kannski af því að velferðarkerfið setur fólk í kassa, börnin á barnaheimili, geðfatlaða inn á geðdeildir, fatlaða inn á sérbýli, gamla fólkið á elliheimili. Það er búið að rústa fjölskyldunni. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Við eigum að standa vörð um velferðarkerfið og bæta það enn. En það gerist ekki með upphrópunum og sleggjudómum.