Fátækt á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 14:03:26 (4473)

2000-02-17 14:03:26# 125. lþ. 66.94 fundur 324#B fátækt á Íslandi# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það virðist vera þannig að sumir hv. þm. vilji ekki ræða þessi mál á þeim grundvelli einum sem við getum brúkað, vilji ræða það á grundvelli einhverra upphrópana og stóryrða. Við getum ekki brúkað neinn annan mælikvarða en þann, þegar við gáum að því hvort ríkisstjórn hefur staðið sig í stykkinu eða ekki, hvernig kaupmáttur þeirra bóta sem ríkið greiðir hefur hækkað. Það er eini mælikvarðinn. Einhver hróp og köll og ómakleg frammíköll eru ekki innlegg í málið. Innlegg í málið eru bara þær tölur sem beinharðar standa. Og svo reiðast menn því ef ég vitna til þess að á síðasta kjörtímabili hafa allar þessar bætur eða kaupmáttur þessa fólks hækkað um 20%. Af hverju fagnar fólk ekki þeim þætti? Af hverju er það bara með þessar upphrópanir? (ÖJ: En nú liggur skýrsla fyrir ...) Og enn er haldið áfram að gjamma. Þessar tölur liggja fyrir og það eru þær sem eru staðreyndir máls og á það á maður að hlusta.

Einn hv. þm. spurði hvort ég væri stoltur af þeim árangri sem náðst hefði. Hann vitnaði líka um leið í bók Stefáns Ólafssonar, Íslensku leiðina, og leyfði sér að uppnefna hana --- íslenska neyðin, væntanlega ekki með leyfi frá höfundi. Ég get sagt það að mjög margt sem hann vitnar einmitt til getur gert mann eins og mig stoltan, t.d. þegar Stefán Ólafsson segir á bls. 257, með leyfi forseta: ,,Fátækt á Íslandi er sérhópavandamál sem farið hefur minnkandi.`` Og varðandi eldra borgara segir Stefán Ólafsson, með leyfi forseta: ,,Virðist ljóst af þessum gögnum að Ísland er nú á dögum ekki lengur í hópi þeirra þjóða þar sem eldri borgarar eru í mestum mæli í lægsta lágtekjuhópnum eins og var fyrir áratug síðan.`` Nákvæmlega eins og ég sagði áðan. Auðvitað er maður stoltur yfir þessu. Og Stefán Ólafsson segir á bls. 264, fyrst menn vitna í þessa skýrslu, með leyfi forseta: ,,Heildarniðurstaðan er því sú að Ísland var á eftir í þessu tilliti við upphaf 10. áratugarins en fátækt meðal eldri borgara hefur minnkað mjög ört á tímabilinu.`` Og ég er stoltur af því, hv. þm.