Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 14:18:44 (4478)

2000-02-17 14:18:44# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er margt athyglisvert í þáltill. hæstv. samgrh. og ýmislegt hefur komið fram í ræðum hv. þm. í dag. Vakin hefur verið athygli á þörfinni á samgöngubótum vítt og breitt um landið og það er vel. En það þarf að forgangsraða og það þarf að taka ákvarðanir. Þá er litið til margra þátta eins og byggðasamfélaga, ástands vega og arðsemi. Einmitt þetta síðasta atriði, arðsemi, hefur oft og tíðum ekki vegið mjög þungt við ákvarðanir í vegamálum að mínu mati en mér sýnist það horfa nú til betri vegar. Landsbyggðarþingmenn hafa rætt um nauðsyn jarðganga og jarðgangagerðar. Þeir hafa eilítið tekist á um hvar eigi að byrja en allir, þar á meðal hv. þm. Einar Már Sigurðarson, virðist sammála um að þetta séu brýn verkefni sem nauðsynlegt sé að sýna samstöðu um og ég er sammála því. Ég get hins vegar ekki tekið undir það sem komið hefur fram að þetta sé eingöngu málefni landsbyggðarþingmanna eða landsbyggðarinnar. Samgönguúrbætur eru eitt megintækið til að efla enn frekar byggðina í landinu öllu og margoft hefur verið sagt að byggðamálin séu mál þjóðarinnar allrar en ekki einungis hluta hennar. Ég tek undir það. Ég tel að þær tillögur um jarðgöng sem hæstv. samgrh. hefur kynnt í dag séu athyglisverðar og vel unnar. Því fagna ég að markvisst sé tekið á þessum málum með heildstæða stefnu í jarðgangaáætlunum í huga.

En eins þingmenn suðvesturhornsins sýna skilning á samgönguúrbótum á landsbyggðinni vona ég og vænti þess að þingheimur allur sjái þá miklu þörf og brýnu verkefni sem bíða í samgöngumálum á stórhöfuðborgarsvæðinu. Hér er umferðin mest og fer vaxandi í takti við íbúafjölgun, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Við verðum að horfast í augu við þær staðreyndir. Allir vita um þá miklu nauðsyn að tvöfalda Reykjanesbrautina milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar sem fyrst og er gott til þess að vita að um það mál hefur náðst þverpólitísk samstaða. En Reykjanesbrautin í þéttbýli er líka mikið vandamál. Tvöföldun er sem betur fer hafin í Kópavogi og allir vita sem þar hafa farið að sú tvöföldun er til mikilla þæginda og er það vonandi fyrsta skrefið í að leysa þau mál. Gatnamót Lækjargötu og Reykjanesbrautar í Hafnarfirði eru til mikils vansa en þar fara um 21 þús. bíll á sólarhring.

Sífelld aukning umferðar á Vesturlandsveginum, m.a. við tilkomu Hvalfjarðarganga, kallar á að tvöföldun á þeim vegi verði sett inn í vegáætlun hið fyrsta. Þetta eru allt dæmi, herra forseti, um framkvæmdir á suðvesturhorninu sem verður að hraða og eru þær þjóðhagslega hagkvæmar og mjög arðbærar framkvæmdir sem eru fljótar að borga sig upp. Samgöngumál á stórhöfuðborgarsvæðinu eru líkt og jarðgangagerð á landsbyggðinni hagsmunamál þjóðarinnar allrar.