Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 14:39:00 (4485)

2000-02-17 14:39:00# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er aðeins út af ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, 5. þm. Norðurl. v., sem fjallaði um það að kanna einn möguleika til, þ.e. göng milli Fljóta og Ólafsfjarðar. (JB: Fyrirgefið, sagði ég Ólafsfjarðar?) Já, þingmaðurinn sagði það. Ég minni hv. þm. á skýrslu Lágheiðarhópsins sem kveður skýrt á um það hvaða möguleika skal velja í þessum landshluta. Í þeim vinnuhópi var m.a. forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar, Gísli Gunnarsson, sem lagði til þá leið sem Vegagerðin leggur fram sem fyrsta valkost. Þess vegna finnst mér dálítið skrýtið þegar hv. þm. kemur hér upp í ræðustól hv. Alþingis og fer að fjalla um að ræða þurfi aðrar leiðir í þessu þegar allir hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu, nema sennilega hann. Þar sjáum við og höfum verið að tala um hvílíkir möguleikar þetta eru í sameiningu sveitarfélaga og í ferðaþjónustunni á svæðinu, sem m.a. mun nýtast öllum Skagafirði. Og rétt í lokin, herra forseti, mér finnst eitt koma ansi skringilega fram í ræðu hv. þm. þegar hann fjallar um þetta, vegna þess að í nýliðinni kosningabaráttu, a.m.k. á fundum á Siglufirði, talaði hv. þm. um jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð en ekki þessa leið. Herra forseti. Mér finnst Ragnar Reykás vera kominn hingað í þingsal.