Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 14:43:59 (4489)

2000-02-17 14:43:59# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé forhlaupin tíð að tala um göng úr Siglufirði og inn í Fljót. Ég vildi ræða það í alvöru áður en ráðist verður í endurbætur á Strákagöngunum hvort ekki væri skynsamlegra að fitja upp á nýtt og fara nýja leið, úr Hólsdal í Nautadal. Því var tekið illa í bæjarstjórn Siglufjarðar og sú hugmynd kveðin niður, m.a. tók hv. þm. Kristján Möller þátt í því. En loksins er kominn vegur með bundnu slitlagi frá hringveginum til Siglufjarðar og því ber mjög að fagna. Það var algjör samstaða meðal þingmanna Norðurl. v. á síðasta kjörtímabili að leggja alla áherslu á þá vegarlagningu og miklir peningar eru komnir í þann veg, það er kominn að núvirði a.m.k. einn milljarður á sl. 20 árum í vegatenginguna til Siglufjarðar. Værum við hins vegar að koma að ónumdu landi núna eða ef Siglufjörður hefði ekki aðra vegtengingu en gamla veginn um Siglufjarðarskarð væri auðvitað einboðið að fara þessa leið, að mínu mati. Því miður bárum við ekki gæfu til þess að taka þá skynsamlegu ákvörðun á sínum tíma og þar af leiðandi held ég að við verðum að láta okkur duga tvær samgönguæðar til Siglufjarðar en ekki þrjár.