Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 14:54:56 (4492)

2000-02-17 14:54:56# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Herra forseti. Umræður hér í dag hafa að verulegu leyti eins og gefur að skilja farið í að ræða jarðgangaskýrsluna. Eins og fram hefur komið eru hér auðvitað mikil tíðindi á ferðinni, að þessi skýrsla skuli á annað borð komin til umræðu í tengslum við vegáætlun. En eins og ég kom að í máli mínu í morgun þá eru önnur stórverkefni sem við þurfum að huga að. Ég vil minna á að í nál. samgn. árið 1998, þegar við afgreiddum þá vegáætlun sem nú er í gildi, var talað um að 550 millj. vantaði inn í stórverkefni á Austurlandi. Viðurkennt var að það þyrfti að leiðrétta þegar langtímaáætlun yrði endurskoðuð. Ég held að þetta séu allt hlutir sem við þurfum að hafa í huga. Við þurfum líka að hafa í huga, eins og ég nefndi í morgun, veginn til Vopnafjarðar. Á þessum tíma var viðurkennt að gera þyrfti ráð fyrir meira fé til að tengja Vopnafjörð um Hofsárdal upp á Háreksstaðaleið. Enn vil ég nefna að með tilkomu virkjunar í Fljótsdal og stóriðju á Reyðarfirði þarf að gera ráð fyrir auknu fé til vegaframkvæmda í tengslum við þær framkvæmdir. Að mörgu er að hyggja og þetta er verkefni sem við í samgn. verðum að takast á við.

Jarðgangaáætlunin er náttúrlega það sem mest er spennandi. Eins og kemur fram á bls. 4 í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar þá var 21 verkefni skoðað í tengslum við þessa áætlanagerð. Auðvitað verðum við að huga að næstu verkefnum, ekki eingöngu þessum þremur sem nefnd eru sem fyrstu verkefni, heldur verðum við að huga að framhaldsverkefnum í jarðgangagerð. Það er auðvitað mikilvægt að undirbúa þessar framkvæmdir og gera ráð fyrir þeim þegar hugað er að öðrum vegaframkvæmdum.

Vegagerðin nefnir það reyndar í skýrslu sinni að hún telji líklegt að af verkefnunum sem hún skoðaði, þessum jarðgangaleiðum, muni í næsta áfanga vera gert ráð fyrir Óshlíð á Vestfjörðum, leið á milli Ísafjarðar og Súðavíkur, og síðan Eyrarfjalli í Djúpi. Á Austurlandi nefnir Vegagerðin í skýrslu sinni leiðina Vopnafjörður/Hérað, Seyðisfjörður/Hérað/Norðfjörður, svokallaðan gaffal eins og við kölluðum það fyrir austan; leiðina Norðfjörður/Eskifjörður og leiðina Stöðvarfjörður/Breiðdalsvík. Allar þessar leiðir munu hafa mikil áhrif á viðkomandi byggðir og munu stytta vegalengdir allverulega á mörgum stöðum. Ég vil einnig nefna að göng undir Berufjörð, sem einnig eru nefnd í skýrslu Vegagerðarinnar eru talin hagkvæm framkvæmd, á mælikvarða Vegagerðarinnar, sem muni borga sig á u.þ.b. 30 árum eða svo.

Hér er um mjög mikil verkefni að ræða. Ég tel augljóst að af þeim miklu verkefnum sem eru á Austurlandi verðum við að finna næstu verkefni á eftir þeim sem hér eru í forgangi. Þetta verðum við að ræða í tengslum við þessa áætlanagerð og munum væntanlega taka til rækilegrar skoðunar þegar þetta mál kemur í hendur þingmanna, kjördæma og í samgn. Ég vildi einnig nefna að í sjálfu sér er hægt að hefja rannsóknarvinnu nú þegar. Á Austurlandi hefur verið gert ráð fyrir því í vegáætlun mjög lengi að hafa nokkurt rannsóknarfé og núna eru til 27 millj. kr. til rannsókna á jarðgangaverkefnum. Ég held að í rauninni sé ekki eftir neinu að bíða með að hefja strax undirbúning að þessum verkefnum og nýta það fé sem til er.

[15:00]

Eins og kom fram í máli ráðherra í morgun þá vill hann bjóða út í einum pakka jarðgöng á Austurlandi og Norðurlandi og það tel ég mjög vel. Ég held að það sé gott að standa þannig að verki, ekki síst vegna þess að um mikinn sparnað yrði að ræða eins og kom fram í máli ráðherra. Það skiptir hins vegar miklu máli að rannsóknir fari strax af stað og það væri rétt að heyra betur frá ráðherra hvað varðar fjármögnun á jarðgangarannsóknum þó svo að við eigum þessar 27 millj. fyrir austan, þá þarf væntanlega að gera ráð fyrir meira fé og einnig á jarðgangakostum fyrir norðan þannig að þarna sé ekki eitthvað sem hemur okkur í því að byrja.

Síðan vil ég leggja sérstaka áherslu á að hér er verið að tala um að fjármagna allar þessar framkvæmdir með sölu ríkisfyrirtækja. Það er alveg ljóst að þingmenn geta ekki í öðru orðinu talað um að hér þurfi að fara af stað miklar framkvæmdir í jarðgangamálum en vilja síðan ekki leggja fé til þess að fjármagna þær. Tillaga ríkisstjórnarflokkanna er að selja ríkisfyrirtæki til að fjármagna þessar framkvæmdir og það er þá eins gott að menn standi að því að vilja selja ríkisfyrirtæki og eiga þá eitthvað til að framkvæma fyrir. Mér hefur aðeins fundist af máli manna að þeir gætu ekki alveg staðið að þessu tvennu, þ.e. að fjármagna jarðgangaframkvæmdir með sölu ríkisfyrirtækja og hins vegar að fara í framkvæmdir.