Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:15:11 (4498)

2000-02-17 15:15:11# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það neitar því enginn að ör framþróun hefur orðið í landinu á síðustu áratugum á flestum sviðum. Hér hafa risið glæsilegar byggingar. Hér fer um götur bílakostur sem er betri og nýrri en víðast annars staðar þar sem maður kemur. En það er annað með vegakerfið, það er virkilega gamaldags og ófullnægjandi, hvort sem litið er til samgangna á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi.

Auðvitað á þetta sínar skýringar. Við erum fámenn þjóð í tiltölulega stóru landi og þannig er mikill kostnaður á hvern íbúa að byggja nothæfa vegi um allt land. Því miður er skýringin ekki bara fólgin í því. Hún er ekki síður fólgin í því að alltaf þegar vantað hefur peninga eða þurft að stemma af fjárhagsáætlanir þá hefur einhvern veginn legið svo vel við að skera niður vegaframkvæmdir, sérstaklega úti um land. Þar fara tiltölulega fáir um, flestir búa á suðvesturhorninu og tiltölulega lítill hluti af þjóðinni þarf t.d. oft að fara um Vattarnesskriður og gerir sér grein fyrir hvílíkar ógnar aðstæður þar eru fyrir hendi. Þar verður aldrei hægt að gera þar þokkalegan veg. Þarna fellur stöðugt grjót úr hlíðinni, hvenær sem maður fer þar um eru nýfallnar skriður. Ég fæ alla vega ekki komið auga á hvernig hægt væri að koma í veg fyrir það með góðu móti.

Framlög til vegaframkvæmda hafa verið skorin niður aftur og aftur. Nú lendum við einu sinni enn í því á þessu ári. Loksins eru til peningar og þeir streyma inn í ríkissjóð þó að deila megi um hversu góðkynja þeir eru --- sumir vilja halda því fram að þeir séu baneitraðir --- en þá lá auðvitað beint við til að draga úr yfirvofandi þenslu með því að skera niður fyrirhugaðar vegaframkvæmdir um 585 milljónir á þessu ári.

Ég held að enginn geti haldið því fram með góðu móti að fyrirhugaðar vegaframkvæmdir hafi í sjálfu sér verið mjög þensluhvetjandi. Ýmsir aðrir þættir hér í þjóðlífinu verkuðu þar beint inn. Hér á haustdögum var t.d. unnið dag og nótt að því að byggja gríðarlega viðbyggingu við Kringluna í Reykjavík, byggja við verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem enginn hafði tekið eftir að væri af skornum skammti. Til þess voru m.a. fluttir inn verkamenn svo þar væri unnt að vinna dag og nótt. Ríkið eða þjóðfélagið, ríkisstjórnin, átti engin ráð til að sporna við þessu. Þá lágu vegamálin beint við, 585 milljónir teknar þaðan til að draga úr þenslu. Gamalkunnugt ráð sem auðvitað var notað þarna líka.

Það hefur komið fram hér í umræðunum að ekki sé unnt að ráðast í vegaframkvæmdir á landinu eins og nú horfði nema selja frekari ríkiseignir. Ég hélt að hér hefði verið skilað fjárlögum með gríðarlegum afgangi sem fyrirhugað var að nota til að borga erlendar skuldir ríkisins. Þegar til kom reyndist það ekki unnt því að gullforðinn leyfði það ekki. Þeir peningar voru því lagðir á ís. Kannski væri ráð að nota þessa peninga sem fengist hafa ýmist vegna hins eitraða fjármagns sem ég nefndi hér áður eða sölu ríkiseigna sem kannski er líka svolítið eiturbragð af, a.m.k. sölu sumra þeirra. Það væri kannski hægt að nota þá í vegaframkvæmdir fyrst ekki reyndist unnt að nota þá til að borga erlendar skuldir.

Þær ákvarðanir sem teknar voru hér á síðasta áratug, þau áform sem menn höfðu þá um jarðgöng sem aldrei var hægt að koma sér almennilega saman um hvar ættu að vera, staðnæmdust á byrjunarreit og hafa verið þar nánast þar til í dag. Opinberunin birtist okkur í morgunútvarpinu, að nú væri búið að ná samstöðu um að byggja samtímis tvenn jarðgöng og þau þriðju í leiðinni svona með hinni hendinni. Ég verð að segja að þessar fyrirhuguðu framkvæmdir hugnast mér allar mjög vel. Ég vil sérstaklega tiltaka göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar sem koma í veg fyrir að fólk þurfi að klöngrast fyrir Vattarnesskriður sem, eins og ég hef áður tekið fram, hafa alla tíð verið óvegur og munu alltaf verða. Göngin frá Siglufirði til Ólafsfjarðar eru greinilega mjög góð framkvæmd sem opnar leið frá Siglufirði inn á Eyjafjarðarsvæðið. Ég er mjög hlynnt því.

Ég tala nú ekki um göngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar sem gera það að verkum að það verður hvorki meira né minna en heilsársvegur frá norðanverðum Vestfjörðum nánast. Vegna þess að frá Brjánslæk eru ferjusamgöngur yfir í Stykkishólm verður nánast heilsársvegur frá norðanverðum Vestfjörðum til Reykjavíkur og munar nú um minna. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum ef þessi göng verða að veruleika. Ég vil jafnframt leggja áherslu á að þar þarf að hafa hraðar hendur svo ekki verði allir fluttir burt áður en göngin verða opnuð.

Ég ætla einnig að koma hérna inn á framkvæmd sem tiltölulega lítið hefur verið rædd hér á þessum þingfundi. Það er Reykjanesbrautin. Ég sé að tími minn styttist en ég vil minna á það að ársdagsumferð á Reykjanesbraut eru 7.000 bílar á dag. Samsvarandi umferð á Vesturlandsvegi er 15.500 bílar. Auðvitað segir þetta okkur að það er ekki vegna þess að umferðin sé svo óskaplega mikil að ástandið á Reykjanesbrautinni er jafnalvarlegt og við þekkjum. Hins vegar eru þar mjög mismunandi álagspunktar.

Tími minn leyfir ekki að ég tali lengur. Ég kem kannski seinna en vil þó segja að við þingmenn Reykjaneskjördæmis erum sammála um að neyta allra bragða til að flýta tvöföldun Reykjanesbrautar.