Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:05:19 (4510)

2000-02-17 16:05:19# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill nú svo til að í þessu máli gætum við hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir ekki verið meira sammála. Auðvitað er ég jafnáfjáð og aðrir þingmenn kjördæmisins um að brautin verði tvöfölduð í einu lagi og ég held að ég hafi gert grein fyrir því í ræðu minni hér áðan. Ég hef kannski ekki talað nógu skýrt en það liggur náttúrlega fyrir að áður en af slíku útboði getur orðið þarf að fara fram umhverfismat og hönnun á lagningu brautarinnar. Vonandi getur það farið fram þannig að við getum byrjað á þessari framkvæmd árið 2003 en vissulega þurfum við líka að finna einhvern, hvort sem það er Vegagerðin, ríkissjóður eða einhver verktaki, sem vill fjármagna framkvæmdina þar til kemur að úthlutunum samkvæmt vegáætlun.