Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:40:54 (4525)

2000-02-17 16:40:54# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil annars vegar nefna í tilefni af umræðu um sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu að fyrir liggur að sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki getað komið sér saman um heildarlausn á umferðarvanda í kringum höfuðborgarsvæðið og það hefur þess vegna verið ákveðinn vandi við þetta erfiða úrlausnarverkefni.

Hins vegar vil ég lýsa ánægju með þá almennu samstöðu sem virðist ríkja um tvöföldun Reykjanesbrautar og flýtingu þeirra framkvæmda, ekki aðeins innan þingmannahóps Reykjaness heldur hafa þingmenn úr líklega flestum kjördæmum tekið undir það sjónarmið.

Ég vil taka undir með hv. þm. Gunnari Birgissyni um þann sparnað og ávinning sem er að því að bjóða verkið út í einu lagi. Það leiðir af sjálfu sér að með þeim hætti næst betra verð og þar af leiðandi verður framkvæmdin ódýrari. En það er líka rétt að draga fram í framhaldi af því þann sparnað sem felst í því að draga úr slysum. Komið hefur fram m.a. í tölum frá tryggingafélögum að með tvöföldun Reykjanesbrautar muni slysastuðull á Reykjanesbraut lækka um meira en helming og tryggingafélög telja sig spara á tíu árum um 1,5 milljarða ef ég man rétt í beinum útgjöldum og þá eru ekki með talin útgjöld hins opinbera eða hinn mannlegi harmleikur sem fylgir þessu.

Ég spurði hæstv. ráðherra fyrr í umræðunni hver afstaða hans væri til þess að flýta framkvæmdum ef einkaaðilar svo sem tryggingafélög eða verktakar bjóðast til að leggja fram fé þannig, að framkvæmdir gætu hafist í kjölfar umhverfismatsins sem unnið verður á þessu ári og ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra muni víkja að því í lokaræðu sinni í dag.