Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:43:01 (4526)

2000-02-17 16:43:01# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þm. um að sveitarstjórnirnar hafi ekki verið að vinna eða fundið heildarlausnir á umferðarvanda um höfuðborgarsvæðið eins og hann orðaði það. Auðvitað erum við að vinna í því máli og það liggur nokkurn veginn klárt fyrir. Það sem menn hafa staldrað við í því sambandi er ofanbyggðavegur frá Hafnarfirði um Garðabæ yfir í Kópavog til Reykjavíkur. Ef við horfum aðeins á það, þá kemur hann yfir á Breiðholtsbraut, liggur síðan upp á Vatnsenda niður með Elliðavatni og þaðan síðan beint í Hafnarfjörð og þá spyr maður: Hve margir mundu fara þann veg frá Hafnarfirði að Kópavogi þar sem íbúasvæðin eru? Um það eru menn ekki sammála. Þar sem atvinnusvæði og íbúðabyggðir eru þangað fer fólkið eftir vegunum. Menn eru kannski ekki búnir að finna alveg út úr þessu og ekki sammála um þau atriði. En þessi umferðalíkön segja til um þetta nákvæmlega. Þetta er allt unnið í tölvum og eins og oft er þá er ýtt á einn takka og síðan trúa menn þessu eins og nýju neti en það fer nú aldrei öðruvísi en forsendurnar eru sem maður setur inn í tölvurnar.

Hvað varðar slysin, að þeim mundi fækka svona gífurlega eins og var sagt á fundinum suður í Grindavík þar sem við hv. þm. Hjálmar Árnason vorum, slíkar fullyrðingar geta verið sannar, þær geta líka verið ósannar. En við skulum vona og auðvitað stefnum við á það að við tvöföldun brautarinnar fækki slysum til muna, það er alveg ljóst því að megnið af slysunum eða flest eru vegna framúraksturs. Þá verða þessi slæmu slys.