Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:45:01 (4527)

2000-02-17 16:45:01# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:45]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. nefndi að hvað varðar ofanbyggðaveginn hafa Garðabær og Hafnarfjörður ekki getað komið sér saman um þá lausn. Fyrir vikið hefur endanleg ákvörðun um það mál í rauninni dregist og það hefur ekki verið málinu til framdráttar.

Ég vil síðan nefna varðandi slysin og tölur um hversu mikið slysastuðullinn lækkar. Það eru tölur sem tryggingafélögin treysta sér til þess að halda fram og það er rétt hjá hv. þm. að alvarlegustu og verstu slysin verða annars vegar vegna framúraksturs og hins vegar þegar bílar úr gagnstæðri átt skella saman. Það eru langalvarlegustu slysin sem eru bæði kostnaðarmest og sem valda langsamlega mestu tjóni, bæði dauðaslysum og örkumli. Mestu máli skiptir í þessu að samstaða er um að ræða að flýta framkvæmdum og það er það sem þingmenn Reykjanesskjördæmis og að því er virðist aðrir vilja einblína á.