Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:52:32 (4532)

2000-02-17 16:52:32# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:52]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg sammála þessu að það séu eingöngu stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Það hafa náttúrlega verið stórframkvæmdir víða um land, bæði í vegagerð og annað og hálendið er náttúrlega úti á landi. Það er fólk utan af landi sem vinnur við þessar hálendisframkvæmdir, virkjanir og annað þannig að kannski er þetta ekki alveg rétt. En auðvitað verða þessir flutningar að stoppa. Þá deyr landsbyggðin og við verðum að fara að stokka og gefa upp á nýtt.

En það er mjög erfitt að segja fólki hvar það eigi að búa. Við erum að reyna að gera vegina fína og góða fyrir okkur öll í landinu og samt fer fólkið. Við erum gera flottar hafnir, við gerum fína flugvelli, samt er fólkið að fara. Þá spyr maður: Hvað er að? Það er ekki alltaf að setja peninga, þetta er líka huglægt mál sem fólk þarf að skoða sjálft og þeir sem standa að þessum málum.

Ég er ánægður með að hv. þm. Kristján Möller tekur undir það með mér að þörf sé á auknum á fjármunum og styður okkur þingmenn Reykjaness í tvöfaldri Reykjanesbraut.