Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:53:57 (4533)

2000-02-17 16:53:57# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umræðuna mikið. Það eru aðeins örfá atriði og í tilefni þeirra orðaskipta sem áttu sér stað milli hv. þm. Kristjáns Möllers og Gunnars Birgissonar skulum við auðvitað forðast að stilla umræðunni um vegamál í einhvers konar baráttu þéttbýlis og dreifbýlis. Það er allt of mikil einföldun og ódýr nálgun að þessu viðfangsefni.

Auðvitað er það þannig að kjördæmin eru að togast á um þá fjármuni sem eru til staðar og það þarf með einhverju móti að skipta kökunni. Það er nýtt mál og gamalt. En ég hygg að við komumst ekki lönd né strönd ef við ætlum að missa þetta út í þras milli þéttbýlis og dreifbýlis. Nógu slæm er staðan í þeim efnum þó að við förum ekki að bæta á hana með slíkri umræðu. Það væri hægt að hafa langt mál um þá öfugþróun sem átt hefur sér stað í byggðaþróun sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar þrátt fyrir ofgnótt og góðæri á alla kanta.

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem ég vildi koma að. Nú undir lok umræðunnar hafa sérstaklega þingmenn þéttbýlisins, R-kjördæmanna svokölluðu, Reykjaness og Reykjavíkur, komið hver á eftir öðrum og undirstrikað sem rétt er mikilvægi þess að þessir þingmenn stæðu saman um það að raða niður og forgangsraða mikilvægum framkvæmdum og knýja á um að fá þær á framkvæmdastig fyrr en síðar. Allt gott um það og ég tek þátt í því samstarfi.

Við skulum hins vegar ræða þessi málefni eins og þau eru. Þau eru einfaldlega þannig að það er í valdi ríkisstjórnarinnar sjálfrar og þá einkum og sér í lagi hæstv. samgrh. hvernig þessum málum verður skipað. Hv. þm. stjórnarliðanna úr þessum kjördæmum tveimur virðast hafa ákaflega lítið um málið að segja þegar kemur að hinum raunverulegu stóru ákvörðunum. Það fengum við að heyra áðan þegar kom að frestun framkvæmda á suðvesturhorninu á yfirstandandi ári upp á 600 millj. kr. Það birtist í yfirlýsingu hv. þm. Gunnars Birgissonar þar sem hann lýsti andstöðu sinni við það og vafalaust eru fleiri þingmenn sem þannig háttar til um. Auðvitað spyr maður sig: Er ástæða til mikillar bjartsýni, herra forseti, að þetta náist fram? Er ástæða til þess eftir undarlegt innlegg hæstv. ráðherra í þessum umræðum áðan að reikna með því að hann verði sérstakur áhugamaður um að flýta framkvæmdum á suðvesturhorninu með því að heimila lántökur hjá verktökum eða öðrum? Hæstv. ráðherra svarar því vafalaust í ræðu sinni á eftir því að þetta er grundvallarspurning. Það er ljótt að draga fólk á asnaeyrunum og gefa því einhverjar vonir um að hægt verði að flýta til að mynda framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar með þeirri leið ef það er enginn pólitískur vilji til þess af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar því að sagan sýnir okkur að þótt þingmenn stjórnarliðanna í þessum tveimur kjördæmum séu vel á annan tuginn hefur það ekki vigtað mikið þegar kemur að hæstv. ráðherra úr ríkisstjórninni. Það er bara þannig. Við bíðum auðvitað eftir því að hæstv. ráðherra svari því alveg svellkalt hvort þetta sé uppi á borðum af hans hálfu. Ef það er ekki, þá er veruleikinn varðandi tvöföldun Reykjanesbrautar þessi: Það eru um það bil 500 milljónir á þessu tímabili sem við erum að ræða til tvöföldunar Reykjanesbrautar. Menn komast um það bil 5 km í tvöföldun á því tímabili ef ekkert nýtt fjármagn fæst. Þetta er því kjarna- og lykilspurning.

Einnig hitt, herra forseti, sem verður ekki horft fram hjá, og það er innlegg hæstv. ráðherra í umræðuna þar sem hann var í raun og sanni að skáskjóta sér undan því að taka efnislega afstöðu til þeirra beiðna og þeirra þarfa sem fyrir liggja á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig gerði hann það? Hann gerði það með því að fullyrða að undirbúningur væri of skammt á veg kominn og ósamstaða að því er virtist hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu gerði það að verkum að þessi verkefni væru ekki komin á framkvæmdastig. Ég bað um útskrift af þessu og því miður er hún ekki komin, ég hafði vænst þess að hún yrði komin í mínar hendur þegar ég hélt þessa ræðu en hennar er að vænta á næstu augnablikum. Við þurfum ekkert að deila um það. Þetta var efnislega innihaldið í andsvari hæstv. ráðherra. Því spyr ég: Hvaða undirbúningur er það nákvæmlega sem hæstv. ráðherra á við? Hvaða sveitarfélög eru það og hvaða verkefni eru það sem hafa þannig farið í útideyfu og forgörðum á undirbúningsstigi og gera það að verkum að þau eru ekki framkvæmdatæk? Ég vil algerlega skýr svör í þeim efnum. Mér er ekki kunnugt um það eftir viðræðu mína við sveitarstjórnarmenn og eftir að hafa auðvitað fylgst gjörla með því eins og aðrir þingmenn kjördæmisins. Það einasta sem menn eru ekki komnir að niðurstöðu um er Reykjanesbrautin í gegnum Hafnarfjörð og ofanbyggðavegur í því sambandi. Ég vil af því gefna tilefni leiðrétta hv. þm. Gunnar Birgisson hvað varðar legu þess vegar að auðvitað gefur það augaleið að enginn eða örfáir a.m.k. aka þann veg ef hann fer upp sunnan megin frá Straumi og endar upp við Elliðavatn. Það er auðvitað ekki hugmyndafræðin heldur það að hann tengist byggðunum norðan Hafnarfjarðar, hann tengist nýjum hverfum í Hafnarfirði sjálfum með mislægum gagnamótum. Öðruvísi kemur hann aldrei að gagni og verður aldrei notaður. Það er það einasta sem ég hygg að sér nær lagi hjá hæstv. ráðherra að sé enn þá á undirbúningsstigi og þar þurfa menn að haska sér. Þar þyrfti hæstv. ráðherra að ræða við fóstbræður sína í Hafnarfirði eða fóstbræður sína í Garðabæ sem ráða ríkjum í þessum bæjarfélögum. Eða er hæstv. ráðherra að sneiða að flokkssystkinum sínum í Kópavogi? Hafa þeir ekki skilað verkefnum sínum? Eða hvað er hæstv. ráðherra að meina? Er þetta bara ódýr leið til þess að skáskjóta sér fram hjá knýjandi spurningum um það hvort hann sé reiðubúinn til þess á næstu árum að liðka til fyrir framkvæmdum með því að ríkið leyfi verktökum, og ég segi leyfi því að það liggur fyrir vilji af þeirra hálfu með óformlegum hætti að lána til slíkra framkvæmda, enda arðbærar. Er hann að skáskjóta sér undan slíkum pólitískum ákvörðunum?

Það er algerlega bráðnauðsynlegt að skýr svör fáist við þessu álitaefni á þessum fundi áður en málið fer til samgöngunefndar. Ég vek athygli á því, herra forseti, að það erum ekki við í stjórnarandstöðunni sem færðum umræðuna inn á þetta stig heldur var það hæstv. ráðherra sjálfur með ákaflega sérkennilegu innleggi. --- Hér er ég með þessa útskrift og hún er alveg skýr. Efnislega er hún nákvæmlega á þann veg sem ég lýsti. Það stendur upp á sveitarfélögin á suðvesturhorninu þegar kemur að því að ráðast í löngu tímabærar og mikilvægar vegabætur á svæðinu. Þetta sagði hæstv. ráðherra og ég spyr: Ætla hv. þingmenn og þá einkum og sér í lagi stjórnarliðar að sitja undir þessu?