Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:01:45 (4534)

2000-02-17 17:01:45# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:01]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson efni til þessarar umræðu og spyrji og vegna þess er þá best að byrja syðst og rifja upp hvað vantar í því ágæta sveitarfélagi Hafnarfirði. Ákvarðanir í skipulagsmálum á sínum tíma hafa leitt til þeirra þrenginga sem við stöndum frammi fyrir núna um hvernig eigi að leggja brautina í gegnum Hafnarfjörð þannig að það skipulag liggur ekki fyrir. Það er vegna þess að byggðin var sett svo nærri þessari mikilvægu þjóðbraut út á Reykjanes að lausnirnar eru mjög flóknar. Af skipulagsástæðum liggur það mál því ekki fyrir og er ekki komið lengra.

Ef við færum okkur nær og förum upp á Vesturlandsveg þá liggja ekki heldur fyrir skipulagsákvarðanir um útfærslu á mislægum gatnamótum Vesturlandsvegar, Víkurbrautar og svo aftur Suðurlandsvegar. Ef við förum niður á Miklubrautina þá liggur ekki fyrir lausn á vanda hinnar mikilvægu umferðaræðar við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Borgin hefur ekki tekið ákvarðanir um hvernig eigi að leysa það mál.

Varðandi Sundabraut, veginn Sundabraut sem er auðvitað geysilega mikilvæg framkvæmd þá liggur fyrir að þar er heldur engin niðurstaða. Þar er um að ræða tillögu sem sérfræðingahópur Vegagerðarinnar og borgarinnar hefur sett fram. Þar er annars vegar um að ræða brú innarlega yfir Sundin sem kostar 4,8 milljarða, en stjórnendur borgarinnar vilja helst fara aðra leið, þ.e. brú miklu framar sem kostar 10 milljarða þannig að skipulagsmál svæðisins eru á þann veg að það tefur framkvæmdir. Það liggur alveg fyrir.