Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:33:02 (4546)

2000-02-17 17:33:02# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil staðfesta að ég er alveg sammála hv. þm. um að með því að bjóða út stóra áfanga, þó að þeir séu í tilteknum einingum þannig að það geti verið fleiri en einn verktaki sem koma að málinu, þá erum við að ná hagkvæmari framkvæmdum. Það er einmitt það sem ég lagði upp með þegar ég gerði grein fyrir þeirri hugmynd minni að tiltölulega stórir áfangar yrðu boðnir út í jarðgöngum. Sumum þingmönnum fannst lítið til þess koma og að það væri ekki verið að senda nægilega skýr skilaboð til fólks, skilaboð sem fólust í því að bjóða út jarðgöng upp á tíunda milljarð.

Ég vildi nefna þetta af því að það kom hér fram og mér tókst ekki að svara þeim athugasemdum. Ég er alveg sammála þingmanninum um að stærri áfangar gera verkin hagkvæmari og að því þurfum við auðvitað að reyna að stefna þannig að allir geti séð lengra fram í tímann, bæði verktakarnir og líka hinir opinberu aðilar sem eru að framkvæma.