Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:37:47 (4550)

2000-02-17 17:37:47# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að þingmönnum sé ljóst að við erum að fjalla um vegáætlun sem gerir ráð fyrir því að færa framlög til vegagerðar milli ára. Þeim mun minna sem er til framkvæmda á þessu yfirstandandi ári vegna ákvörðunar um það að fresta útgjöldum, þeim mun meira verður til ráðstöfunar á næsta ári. Það sem skiptir öllu máli er að heildarframkvæmdamagnið sé eftir sem áður hið sama þegar litið er til lengri tíma.

Við megum ekki vera svo föst í farinu að við áttum okkur ekki á því að við þurfum að líta yfir meira en eitt ár. Árið er fljótt að líða og þegar um er að ræða stórframkvæmdir sem taka yfir kannski fjögur til fimm ár skiptir ekki mjög miklu máli hvort framkvæmdin er í ár eða næsta ár. Út á það gengur þessi frestun. Fjármunir eru færðir á milli ára þannig að ég held að þegar grannt er skoðað séum við hv. þm. ekkert að tala um sitt hvorn hlutinn.