Flugmálaáætlun 2000 - 2003

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:44:09 (4555)

2000-02-17 17:44:09# 125. lþ. 66.4 fundur 299. mál: #A flugmálaáætlun 2000 - 2003# þál. 14/125, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:44]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um flugmálaáætlun fyrir árin 2000--2003. Sú till. til þál. um flugmálaáætlun sem hér er mælt fyrir var lögð fram á Alþingi í desember sl. rétt fyrir jólaleyfi þingmanna. Hún er lögð fram í samræmi við ákvæði I. kafla 1. gr. laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, með síðari breytingum.

Niðurstöðutölur tillögunnar fyrir árið 2000 eru í samræmi við það sem ákveðið er í fjárlögum.

Nú er í gildi flugmálaáætlun sem nær til áranna frá og með 1998 til og með 2001. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir endurskoðun á framkvæmdum áranna 2000 og 2001 en gerð tillaga um nýjar framkvæmdir á árunum 2002 og 2003.

[17:45]

Auk tekna af flugvallagjaldi, sem rennur að mestum hluta til framkvæmda, standa almennar ríkissjóðstekjur og sértekjur undir rekstri Flugmálastjórnar. Lagt hefur verið fram á Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, og vil ég vekja sérstaklega athygli á því. Þar er lagt til að tekið verði upp nýtt gjald, leiðarflugsgjald. Tekjur af þessu gjaldi eiga að renna til Flugmálastjórnar. Samkvæmt þessu frv. skulu umráðendur loftfara greiða gjald fyrir flugumferðar- og flugleiðsöguþjónustu, þar með talið fjarskiptaþjónustu, veðurþjónustu og leitar- og björgunarþjónustu, flugupplýsingaþjónustu á flugleiðum í innanlandsflugi. Áætlað er að tekjur af þessu gjaldi verði 30 millj. kr. á þessu ári og er það í samræmi við fjárlögin en 43 millj. kr. á heilu ári.

Áður en lengra er haldið er rétt að fara nokkrum orðum um þróun flugumferðar innan lands á síðustu árum. Áætlunarflugvöllum hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Frá því að núgildandi þál. í flugmálaáætlun var samþykkt hefur áætlunarflugi til Hólmavíkur, Raufarhafnar og Kópaskers verið hætt. Við endurskoðun flugmálaáætlunar hefur sú regla verið viðhöfð að þeir flugvellir sem hætt hefur verið áætlunarflugi til flokkist undir þjónustuflugvelli. Bakkaflugvöllur er tekin inn sem áætlunarflugvöllur í þessari flugmálaáætlun. Nú eru því áætlunarflugvellir í innanlandsflugi 17.

Um áætlunarflugvelli innan lands fóru um 958 þúsund farþegar á árinu 1999 sem er aukning um 3,3% frá árinu áður. Rétt er að taka það sérstaklega fram og hafa í huga að hver farþegi er tvítalinn, þ.e. bæði við brottför og komu.

Ef litið er til ársins 1990 hefur farþegum fjölgað um 260 þúsund sem er 37% þrátt fyrir fækkun áætlunarflugvalla og verulega bætt vegakerfi á þessum tíma svo og fjölgun einkabifreiða. Þrátt fyrir að áætlunarflugvöllum hafi verið fækkað verður að halda mörgum þjónustuflugvöllum og öðrum flugvöllum opnum eða opna þá með skömmum fyrirvara vegna sjúkraflugs.

Sú flugmálaáætlun, sem hér er lögð fram, er nokkuð breytt frá fyrri áætlunum er varða áherslur. Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að byggja upp flugbrautir, flughlöð og flugstöðvar á áætlunarflugvöllum. Búið er að leggja bundið slitlag á svo til alla áætlunarflugvelli landsins. Því gefst nú kostur á að huga meira að mjög brýnni endurnýjun eldri mannvirkja og tækja og einnig að því að byggja upp frekari aðflugsbúnað. Aukinn og bættur aðflugsbúnaður sem byggir bæði á aðflugsljósum og rafeindabúnaði til flugleiðsögu eykur allt öryggi í flugi jafnframt því að bæta nýtingu flugvallarmannvirkja og flugvéla.

Við undirbúning þessarar flugmálaáætlunar voru allir flugvellir flokkaðir í sex flokka í samræmi við ákveðnar forsendur. Fyrir hvern flokk hafa verið skilgreind þau markmið sem stefnt er að. Að hluta eru þetta alþjóðastaðlar sem flugvöllurinn þarf að uppfylla en einnig ákvæði um stærð hinna ýmsu mannvirkja, viðbragðstími snjóruðningsliðs, áreiðanleika tækja, búnaðar o.s.frv.

Af einstökum verkefnum þessarar flugmálaáætlunar eru endurbætur flugbrauta á margumræddum Reykjavíkurflugvelli langstærsta verkefnið. Umsvifin á Reykjavíkurflugvelli hafa verið í stöðugum vexti. Frá árinu 1994 hefur farþegum um Reykjavíkurflugvöll fjölgað um 110 þúsund og á árinu 1999 fóru 453 þúsund farþegar um Reykjavíkurflugvöll.

Flugbrautirnar á Reykjavíkurflugvelli eru orðnar mjög illa farnar. Því er endurbyggingin afar mikilvæg fyrir innanlandsflug og samgöngur í heild. Verkefnið hófst á árinu 1999 en á árinu 2000--2002 verða norður/suður og austur/vestur flugbrautirnar endurbyggðar. Einnig verður byggð akbraut meðfram norður/suður flugbrautinni en hún verður endurbyggð. Á suðvestur/norðaustur flugbrautinni verður slitlag endurnýjað en undirbygging er óbreytt. Hluti af þessum framkvæmdum er endurnýjun ljósabúnaðar á öllum flugbrautum og akbrautum.

Þá vil ég nefna annað stórt verkefni er tengist Reykjavíkurflugvelli og sem byggt er á samkomulagi sem gert var við borgarstjóra en það er bygging æfingaflugvallar í nágrenni Reykjavíkur til að draga úr lendingar- og flugtaksæfingum á Reykjavíkurflugvelli. Endanleg staðsetning vallarins hefur ekki verið ákveðin. Ráðgert er að byrja á þessu verkefni árið 2003 og er áætlað að verja 124,5 millj. kr. til framkvæmdarinnar á því ári en heildarkostnaður við verkið er talinn verða um 220 millj. kr. Stefnt er að því að ljúka þessu verki á árinu 2004.

Af öðrum verkefnum sem tengjast flugbrautum vil ég fyrst nefna framkvæmdir við Vestmannaeyjaflugvöll. Ráðgert er að endurnýja slitlag beggja flugbrautanna á þessu ári og stækka flughlöð á árinu 2002. Á þessu ári er einnig áætlað að leggja nýtt slitlag á flughlöð á Ísafjarðarflugvelli og lagfæra lendingaröryggissvæði á Bíldudalsflugvelli.

Á Vopnafjarðarflugvelli verða flugbrautarljós endurnýjuð á yfirstandandi ári og fjárveitingar eru til endurbóta á flugbrautum á árunum 2002 og 2003. Þá vil ég nefna Bakkaflugvöll. Á árinu 2002--2003 er gert ráð fyrir að endurbyggja flugbrautir á Bakkaflugvelli. Núverandi flugbrautir eru grasi grónar og þola illa hina miklu umferð sem er nú um Bakkaflugvöll. Flugumferð um völlinn hefur aukist töluvert á síðustu árum og nú fara árlega um 17 þúsund farþegar um Bakkaflugvöll. Ég vil þá vekja athygli á því að frá og með árinu 2001 er tekin upp sú nýbreytni að kostnaður vegna viðhalds flugbrauta er ekki skilgreindur á einstaka flugvelli heldur færður á sameiginlegan lið sem er Annar kostnaður í flugmálaáætlun.

Á þessu ári er ráðgert að ljúka við endurbyggingu flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli. Enn fremur verður ráðist í lagfæringar á flugstöðinni á Hornafjarðarflugvelli. Á þessu ári og því næsta er áætlað að verja samtals 15 millj. kr. til að undirbúa byggingu flugstöðvar í Reykjavík. Ákveðið hefur verið að kanna möguleika þess að byggingin verði fjármögnuð sem einkaframkvæmd. Þá er í flugmálaáætluninni lögð áhersla á að ljúka þeim tækjageymslum sem eru í smíðum og reisa nýjar á þeim flugvöllum þar sem þær eru ekki fyrir hendi eða eru úr sér gengnar.

Varðandi verkefni tengd flugbrautar- og aðflugsljósum eru stærstu verkefnin á Ísafjarðarflugvelli og Vestmannaeyjaflugvelli. Á Ísafjarðarflugvelli hagar svo til að vegna hindrana frá fjöllum eru lendingar aðeins leyfðar við sjónflugsskilyrði. Unnið er að lokaþætti ítarlegrar úttektar á því hvernig standa megi að því að koma á næturflugi inn til Ísafjarðarflugvallar og kanna afstöðu allara hagsmunaaðila til þess máls. Þetta starf er unnið í samvinnu við Flugmálastjórn og flugrekanda. Ef niðurstaða þessarar athugunar verður jákvæð er ráðgert að setja upp nauðsynlegan ljósabúnað á árinu 2001--2003. Þessi framkvæmd mun auka nýtingu vallarins verulega frá því sem nú er og uppfylla mjög eindregnar óskir bæði atvinnulífsins og þá ekki síst þeirra sem stunda ferðaþjónustu á þessu svæði.

Á Vestmannaeyjaflugvelli er áætlað að halda áfram þeirri framkvæmd við ljósabúnað sem hafin var á árinu 1999 en þá voru flugbrautarljós endurnýjuð sem breytir mjög mikið allri aðstöðu á þeim flugvelli. Á árunum 2000--2002 verður lokið við að endurnýja þann ljósabúnað sem eftir stendur og mun það auka öryggi í aðflugi og jafnframt auka nýtingu Vestmannaeyjaflugvallar.

Nú standa yfir rannsóknir á notkun nýjustu tækni í gervihnattaleiðsögu til að bæta aðflug inn á Akureyrarflugvöll.

Það er gott, enda veitir ekki af því af mörgu er að taka hér. Það standa yfir rannsóknir á notkun á nýjustu tækni í gervihnattaleiðsögu til að bæta aðflug inn á Akureyrarflugvöll. Um er að ræða leiðrétt gervihnattastaðsetningarkerfi. Ef niðurstöður þessarar rannsóknar verða jákvæðar má gera ráð fyrir að hafist verði handa á árinu 2003 við fyrsta áfanga í uppsetningu nauðsynlegs búnaðar. Þótt unnið sé stöðugt að því að taka gervihnattaleiðsögutæki í notkun í flugleiðsögu á Íslandi hefur verið ákveðið að endurnýja mikilvæga hluti í hefðbundnum flugleiðsögubúnaði. Þetta stafar ekki síst af því að flugrekendur, þ.e. flugfélögin, þurfa lengri tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum og búa flugvélar sínar nauðsynlegum búnaði. Þá er mikilvægt að viðhalda hluta af hefðbundnum flugleiðsögubúnaði um fyrirsjáanlega framtíð þar sem alþjóðlegt samkomulag um gervihnattaleiðsögukerfi er ekki enn í höfn.

Á árunum 2001 og 2002 er ráðgert að endurnýja aðflugsstefnusenda á Reykjavíkurflugvelli. Á árinu 2003 verður aðflugsbúnaðurinn fyrir Ísafjarðarflugvöll endurnýjaður. Þá vil ég nefna nokkur verkefni flugmálaáætlunar sem eru ekki eyrnamerkt einstökum flugvöllum.

Ísland leggur fram sérstaka fjárveitingu vegna sameiginlegrar fjárfestingar Íslands og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar vegna alhliða flugþjónustu. Þetta framlag er sérstakur liður á flugmálaáætlun. Núverandi verkefnastaða gerir kleift að lækka þennan lið nokkuð í ár og á árinu 2001 en gert er ráð fyrir að hann hækki á ný á árunum 2002 og 2003.

Eins og í fyrri flugmálaáætlunum eru nokkrir fjármunir veittir til þess að nýta gervihnattaleiðsögukerfi í flugi. Þessi liður hefur verið lækkaður frá fyrri áætlun vegna þess að fyrsta áfanga þessa verkefnis er nú lokið þar sem gervihnattaleiðsaga hefur verið tekin í notkun í leiðarflugsþjónustu sem og til aðflugs inn á nokkra flugvelli. Á árunum 2000--2003 verður enn haldið áfram að nýta gervihnattaleiðsögu til aðflugs til fleiri flugvalla á landinu. Eins og áður er sérstakur liður ætlaður í rannsóknarverkefni. Á gildistíma þessarar flugmálaáætlunar eru helstu rannsóknarverkefni næturaðflug til Ísafjarðarflugvallar sem áður er nefnt, hljóðálag frá flugvélum í grennd við flugvelli og notkun gervihnattakerfa við flugleiðsögu í aðflugi og til eftirlits með flugumferð.

Áherslan í rannsóknum á hljóð- og hávaðamengun frá flugvélum mun áfram beinast að Reykjavíkurflugvelli eins og á undanförnum árum.

Eins og í fyrri flugmálaáætlunum er stjórnunarkostnaður sérliður sem og leiðréttingar og brýn verkefni. Leiðréttingarliðurinn er þó aðeins 2,5%--4,5% af heildarframkvæmdafé. Þá er einnig ljóst að gera verður átak í slökkvibúnaði flugvalla. Samkvæmt reglum og kröfum Alþjóðaflugmálastofnunar sem stefnt er að taki gildi 2005 þarf að bæta við og styrkja búnað slökkviliða áætlunarflugvalla fyrir þann tíma og er stefnt að því í þessari áætlun.

Eins og komið hefur fram að framan er í þessari flugmálaáætlun megináhersla lögð á auk framkvæmda við Reykjavíkurflugvöll að bæta öryggi í flugi með auknum og endurbættum búnaði flugvalla.

Eins og áður hefur komið fram er þessi flugmálaáætlun lögð fram á hefðbundinn hátt eins og lög um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum segir til um. Ég tel mikla þörf á því að samræmi verði aukið í framkvæmdaáætlunum stofnana þeirra sem falla undir samgrn. Með því ætti að fást betri trygging fyrir því að hámarkshagkvæmni nýtist í framkvæmdum og samgöngukerfið í heild þjóni þörfum þjóðarinnar sem best. Ég hef því ákveðið eins og fram kom í umræðunni um vegamál að hrinda af stað vinnu við gerð samræmdrar samgönguáætlunar og mun sú vinna hefjast á næstu dögum og er raunar að nokkru hafin.

Ég vil ljúka þessari framsögu um flugmálaáætlun fyrir árið 2000--2003 með því að leggja til að henni verði vísað til hv. samgn. að lokinni umræðunni. Það er von mín að allir þeir sem fjalla um málið leggi sig fram um að afgreiða það á skjótan og farsælan hátt og vil ég þakka fyrir þessa umræðu fyrir fram.