Loftferðir

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 18:03:52 (4557)

2000-02-17 18:03:52# 125. lþ. 66.5 fundur 250. mál: #A loftferðir# (gjaldtökuheimildir o.fl.) frv. 74/2000, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[18:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir stjfrv. um loftferðir sem er 250. mál á þskj. 307. Frv. þessu er ætlað að skjóta styrkari stoðum undir gjaldtökuheimildir Flugmálastjórnar við eftirlit með flugstarfsemi í landinu og flugleiðsögu í innanlandsflugi. Frv. hefur einnig í för með sér að vopnaleit á Keflavíkurflugvelli verður fjármögnuð með traustari lagaheimildum en nú er.

Á síðustu árum hafa dómstólar gert auknar kröfur til gjaldtökuheimilda í lögum. Flugmálayfirvöld hafa ekki farið varhluta af þeirri þróun. Árið 1994 reyndi á hvort ákvörðun skoðunar- og eftirlitsgjalds vegna einkaflugvéla á grundvelli gjaldskrár fyrir þjónustu loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar stæðist með tilliti til meginreglna sem umboðsmaður Alþingis hafði mótað um ákvörðun þjónustugjalda.

Umboðsmaður gerði athugasemdir við grundvöll gjaldtökunnar og byggði álit hans á því að samkvæmt heimildum loftferðalaga mætti eingöngu innheimta sem svaraði kostnaði við þá starfsemi sem gjöldunum væri ætlað að standa undir.

Með lögum nr. 60/1998, um loftferðir, voru innleidd ný gjaldtökuákvæði auk þess sem gjaldtökuákvæði þágildandi loftferðalaga, sem höfðu verið í gildi frá árinu 1964, voru tekin upp í lítt breyttri mynd. Einnig var sett ný gjaldskrá fyrir þjónustu loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar til þess að koma til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir hafa alla tíð verið uppi efasemdir um að gjaldtaka vegna eftirlits Flugmálastjórnar hafi staðið á nægilega traustum grunni. Kemur það m.a. til af þróun dómaframkvæmdar Hæstaréttar sem hefur verið að gera vaxandi kröfur til gjaldtökuheimilda stjórnvalda.

Í 1. gr. er fjallað um eftirlitsgjald sem lagt hefur verið á umráðendur loftfara. Fjárhæðir eftirlitsgjalds eru samhljóða núgildandi gjaldskrá flugöryggissviðs Flugmálastjórnar. Ákvæði 1. gr. felur í sér að umráðendur loftfara greiða eftirlitsgjöld í réttu hlutfalli við skráðan hámarkshluttaksmassa loftfarsins. Rétt er að benda á að gjaldtakan er á ársgrundvelli þrátt fyrir að gjalddagar séu tveir, hinn 15. mars vegna tímabilsins frá 1. jan. til 30. júní og 15. september fyrir tímabilið 1. júlí til 31. des. Þannig munu umráðendur loftfara greiða gjöld sín í áföngum.

Ákvæði 2. gr. felur í sér nýmæli fyrir umráðendur loftfara. Í því er fjallað um lendingargjöld, leiðarflugsgjöld og vopnaleitargjald. Lendingargjöld hafa verið innheimt samkvæmt gjaldskrá fyrir afnot flugvalla og er sá gjaldflokkur því ekki nýmæli. Hins vegar er gjaldtaka fyrir leiðarflugsþjónustu í innanlandsflugi nýmæli. Í greininni er leiðarflugsþjónustan skilgreind. Hún felur í sér fimm mismunandi þjónustuþætti, í fyrsta lagi flugumferðarþjónustu, í öðru lagi fjarskiptaþjónustu, í þriðja lag veðurþjónustu, sem fram að þessu hefur verið veitt af Veðurstofu Íslands, í fjórða lagi leitar- og björgunarþjónustu og í fimmta lagi upplýsingaþjónustu.

Með þessari gjaldtöku er notendum þjónustunnar ætlað að greiða hluta af kostnaði við flugumferðarþjónustuna innan lands.

Fjárhæð leiðarflugsgjalds mun byggja á reiknireglu sem Evrópska flugmálastjórnin (EUROCONTROL) beitir við ákvörðun gjalda. Gjaldið reiknast fyrir hvert flug með blindflugsheimild eða á blindflugsleiðum á flugleiðum í innanlandsflugi.

Í skilgreindum tilvikum, sem rakin eru í greininni, mun verða veitt undanþága frá gjaldskyldunni. Þannig mun ekki verða lagt leiðsögugjald á leitar- og björgunarflug, prófflug eftir viðgerð, flug með þjóðhöfðingja og flug loftfara íslenska ríkisins. Eru þær undanþágur í samræmi við það sem tíðkað er víða erlendis.

Samkvæmt útreikningum Flugmálastjórnar er útlagður kostnaður vegna flugleiðsögu 174 millj. kr. á árinu 1998. Þetta nýja gjald á að gefa 30 millj. kr. á þessu ári og 43 millj. kr. á heilu ári.

Í síðari lið 2. gr. er lagt til að grundvöllur vopnaleitargjalds verði settur í lög. Vopnaleitargjald hefur verið innheimt um árabil en fjárhæðir þess og fyrirkomulag gjaldtöku hefur fram að þessu einungis komið fram í reglugerð.

Í 3. gr. er kveðið á um eftirlitsgjald flugrekenda. Samkvæmt því skulu flugrekendur greiða eftirlitsgjald sem miðast skal við fjölda þeirra loftfara sem hlutaðeigandi rekur í starfsemi sinni og skráðan hámarksflugtaksmassa þeirra. Samsvarandi ákvæði er í gjaldskrá fyrir þjónustu flugöryggissviðs Flugmálastjórnar.

Vopnaleitargjald og eftirlitsgjöld loftfara og flugrekenda hafa um árabil verið innheimt sem þjónustugjöld á grundvelli reglugerðar eða mjög almennra lagaákvæða. Af lagatæknilegum ástæðum þykir hins vegar æskilegt að nánar verði kveðið á um þau í lögum enda verður þá síður óvissa um heimild til gjaldtökunnar. Það breytir því ekki að ætlast er til þess að Flugmálastjórn njóti þeirra fjármuna sem aflast vegna þjónustu stofnunarinnar og er nauðsynlegt að taka það sérstaklega og skýrt fram.

Að lokum vil ég taka eftirfarandi fram: Með frv. þessu er ætlunin að ná tvíþættum markmiðum, annars vegar að hefja gjaldheimtu flugleiðsögugjalda í innanlandsflugi, hins vegar er lagagrunnur gjaldtöku samkvæmt gildandi gjaldskrám styrktur á þann veg að hann uppfylli skilyrði skattlagningarheimilda. Í þessu efni hefur verið tekið mið af tillögum nefndar um heimildir til töku skatta og þjónustugjalda sem fjmrh. skipaði 18. okt. 1996. Frv. sérgreinir eftirlitsgjald, lendingargjald innan lands, leiðarflugsgjald, vopnaleitargjald og flugrekstrargjald. Ekki verður fjallað um gjaldtöku í millilandaflugi í frv. eða annarra þjónustugjalda Flugmálastjórnar sem hafa ekki verið talin orka tvímælis.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.