Vegalög

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 18:39:42 (4562)

2000-02-17 18:39:42# 125. lþ. 66.7 fundur 322. mál: #A vegalög# (reiðvegir, girðingar) frv. 54/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[18:39]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. samgrh. að fagna hverju góðu skrefi sem tekið er og hann nefndi varðandi reiðvegina. En ég vil ítreka mikilvægi þeirra í eflingu eins stóratvinnuvegar þjóðarinnar sem er ferðaþjónustan og útivistin.

En það sem ég var að vísa til varðandi girðingarnar, ég var ekki að tala um það sem ókomið er, ég var að tala um að í till. til þál. sem við erum hér með um vegáætlun stendur þessi setning: ,,Mikið er enn af ógreiddum girðingakröfum.``

Þar er verið að vísa til samþykktra krafna í fortíðinni eða í framkvæmdum sem þegar eru búnar og eru óumdeilanlega ógreiddar, eins og fram kemur í setningunni í þessari grein. Spurning mín var einfaldlega: Hversu háar upphæðir er hér um að ræða sem eru ógreiddar í girðingakröfum því væntanlega eru þetta þá greiðslur til bænda eða landeigenda sem þar er um að ræða?