Sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 19:07:20 (4571)

2000-02-17 19:07:20# 125. lþ. 66.9 fundur 242. mál: #A sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[19:07]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til þess að hvetja eindregið til þess að tillagan verði samþykkt. Greinilegt er að um tillöguna er þverpólitísk samstaða því að flutningsmenn eru úr öllum flokkum og þess vegna ætti að vera létt mál að vinna tillögunni stuðning gegnum menntmn. sem mun væntanlega taka vel á málinu. Ég tek undir sjónarmið hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar varðandi sjómenn að auðvitað er það vel við hæfi að ef slík framkvæmdaáætlun verði gerð þá verði tekið tillit til þess að hægt verði að sjónvarpa á haf út líka sem víðast. Ríkisútvarpið er opinber stofnun og ég er stuðningsmaður þess að hún verði það áfram. Það er menningarmál að reka ríkisútvarp, til þess hafa verið innheimt gjöld og embættismenn í þessari opinberu stofnun hafa ákveðið hvaða heimili á landinu skuli njóta sjónvarpsútsendinga. Ég er satt að segja nokkuð hissa á því að framkvæmdaáætlun skuli ekki vera til um það að sjónvarpið, eign okkar allra, skuli ná til allra heimila í landinu. Þetta undrar mig mjög því að allir greiða til þessarar ágætu stofnunar.

Það að reka ríkissjónvarp er eingöngu réttlætanlegt vegna þess menningargildis sem Ríkissjónvarpið hefur og það er satt að segja ekki ásættanlegt að á þessum árþúsundamótum skuli ekki öll heimili í landinu njóta þeirrar þjónustu að geta séð sjónvarpið. Nokkur mismunur er á því hvernig staðan er, en hún er sú, eins og fram kom í framsöguræðu hv. þm. Hjálmars Jónssonar, að það eru 77 heimili á landinu sem njóta ekki sjónvarpsútsendingar en sýnu verst er ástandið í Múlasýslum þar sem nítján heimili ná ekki þessum útsendingum. Ég tek undir að þetta er aðferð til þess að sameina okkur í því að geta séð merka atburði og að fólk geti tekið þátt í þeim með þessum hætti vítt og breitt um landið. Svo má einnig geta þess að þetta ágæta fólk fer á mis við þá merku umræðu sem á sér stað í Alþingi og það er afskaplega slæmt.

Hæstv. forseti. Ég vil enn og aftur hvetja hv. menntmn. til þess að ljúka afgreiðslu málsins fyrir þinglok í vor.