Fátækt á Íslandi

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:06:50 (4577)

2000-02-21 15:06:50# 125. lþ. 67.1 fundur 327#B fátækt á Íslandi# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þegar þessi mál voru rædd á þinginu ekki nú nýlega heldur nokkru fyrr, þá var skýrt frá því að ríkisvaldið hefði í undirbúningi af sinni hálfu athugun á því með hvaða hætti skattar og margvíslegar bætur í landinu skarast. Í framhaldi af viðræðum við samtök aldraðra og reyndar einnig við Alþýðusamband Íslands á sínum tíma, sem leggur áherslu á að þessi þáttur sé athugaður og ræddur, tók ég fram í tilefni af fyrirspurn eða athugasemd frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að þegar þessi athugun ríkisstjórnarinnar á málinu lægi fyrir þá væri sjálfsagt og eðlilegt að hagsmunaaðilar og stjórnarandstaðan kæmu að málinu. Fyrst mundi ríkisstjórnin skoða málið í sínum ranni en síðan þegar þeim undirbúningi væri lokið væri sjálfsagt að stjórnarandstaða og hagsmunaaðilar kæmu að málinu. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kom þá í ræðustólinn og sagði að fyrir sitt leyti þætti honum þetta vera eðlileg málsmeðferð. Og ég endurtek að sá þáttur hefur verið talinn einna brýnastur nú í samskiptum okkar við þessa hópa, að menn skoði nákvæmlega þessa skörun og samþættingu skatta og bóta.