Fátækt á Íslandi

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:08:18 (4578)

2000-02-21 15:08:18# 125. lþ. 67.1 fundur 327#B fátækt á Íslandi# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í neitt pólitískt hnútukast. Hér er á ferðinni mjög alvarlegt mál sem brýnt er að við tökum á af alvöru og reynum að mynda breiða pólitíska samstöðu um úrlausnir. Við erum búin að ræða það allar götur frá 1995 að taka samspil tryggingakerfisins, lífeyrissjóða og skatta til skoðunar og okkur hefur vissulega verið sagt frá því að þar sé nefnd að störfum. En ég tel fyrir mitt leyti að tvennt þurfi að gerast. Það þurfi frá fyrsta stigi að stuðla að breiðri, pólitískri samstöðu um þær lausnir sem kunna að verða uppi á borðinu. Þess vegna beini ég því til hæstv. forsrh. að sú nálgun verði endurskoðuð.

Í öðru lagi tel ég brýnt að þau mál sem liggja nú fyrir þinginu og taka á málefnum þess hluta þjóðarinnar sem býr við fátækt verði látinn hafa forgang í störfum þingsins og ég leyfi mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann vilji beita sér fyrir því að svo verði.